Körfuboltabúðir Vestra heiðraðar á þingi UMFÍ

Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður HSV, tók hvatningarverðlaununum úr hendi Hauks Valtýssonar, formanns UMFÍ.

Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hlaut hvatningarverðlaun UMFÍ 2017 á 50. sambandsþingi UMFÍ sem fram fór á Hótel Hallormsstað um helgina. Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, sagði áður en hann afhenti verðlaunin á þinginu að þau væru afhent HSV fyrir öflugar og metnaðarfullar körfuknattleiksbúðir Íþróttafélagsins Vestra á Ísafirði. Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður HSV, tók við verðlaununum í lok þings í gær fyrir hönd HSV.

Körfuboltabúðir Vestra hlutu einnig hvatningarverðlaun Ísafjarðarbæjar í fyrra og er þetta því í annað sinn sem búðirnar hljóta viðurkenningu af þessum toga. Í frétt á heimasíðu UMFÍ segir: „Búðirnar, sem hófu göngu sína árið 2009, hafa stækkað og eflst ár frá ári og þykja nú einstakar á landsvísu.“

Þess má geta að búðirnar fagna tíu ára afmæli á næsta ári en þær fara fram dagana 5.-10. júní 2018.

smari@bb.is

DEILA