Ísafjarðarbær vill taka yfir málaflokk fatlaðs fólks

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Í tæp sjö ár hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum rekið Byggðasamlag Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks (BsVest) sem veitir þjónustu til fólks með fötlun. Ísafjarðarbær hefur lagt til við hin sveitarfélögin að bærinn taki yfir málaflokkinn. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að Ísafjarðarbær sjái tækifæri fyrir þjónustu ef öll þjónustusvæðin sem dreifast um Vestfirði verði gert kleift að starfa sem eitt teymi. Hann tekur fram að Ísafjarðarbæ sjái í dag um 80% af þjónustunni sem er veitt innan samlagsins.

„Megin markmiðið er að stjórnunarlega ábyrgðin liggi hjá Ísafjarðarbæ og allir starfmennirnir verði hluti af einu teymi og við teljum að þjónustan verði betri og markvissari. Sá sparnaður sem við sjáum fyrir okkur er á bilinu 30-50 prósent af stöðugildi í stjórnun. Önnur fjárhagsleg hagræðing næst ekki nema með betri samvirkni þjónustunnar og það tekur lengri tíma,“ segir Gísli Halldór.

Aðspurður um viðbrögð annarra sveitarfélaga við tillögu Ísafjarðarbæjar segir Gísli Halldór að umræðan sé fyrst að komast á skrið núna. „Í byrjun nóvember verður haldið málþing um tillöguna og það er verið að ræða þetta innan sveitarstjórna núna. Það er búið boða til aukafundar aðildarsveitarfélaganna í BsVest þann 17. nóvember þar sem tillagan verður tekin fyrir formlega.“

Í tillögunni er gert ráð fyrir að allir starfsmenn sem vinna í málaflokknum á Vestfjörðum verði starfsmenn Ísafjarðarbæjar og sveitarfélögin geri þjónustusamning við Ísafjarðarbæ um að veita þjónustuna.

smari@bb.is

DEILA