Sókn í stað varnarbaráttu

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Það er kominn tími til að sækja fram fyrir landsbyggðina og almennt launafólk. Við getum gert svo miklu betur en gert hefur verið undanfarin ár, þegar efnahagur þjóðarinnar hefur batnað. Nú verðum við að blása til sóknar og byggja upp réttlátt samfélag til framtíðar.

Byggð á Vestfjörðum hefur háð varnarbaráttu lengi en nú er kominn tími til sóknar. Við verðum að hefja framkvæmdir strax í veglagningu á sunnanverðum Vestfjörðum – annað er ekki í boði og tryggja verður afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum því við lifum á 21. öldinni og annað er óásættanlegt.

Vinstri græn eru tilbúin að veita forystu vinstri félagshyggjustjórn eftir kosningar, fáum við gott brautargengi, og vinna af ábyrgð og heiðarleika að bættum kjörum almennings og eflingu innviða og atvinnulífs um allt land.

Það gengur ekki lengur að misskipting og ójöfnuður aukist í landinu og grunninnviðir eins og heilbrigðiskerfið, menntastofnanir, samgöngur og löggæsla séu fjársvelt þegar góðæri ríkir í landinu.

Síðasta ríkisstjórn sýndi á spilin og kynnti fjárlagafrumvarp með 44 milljarða tekjuafgangi en áframhaldandi sveltistefnu á öllum innviðum landsins. Ekkert er gert til að bæta stöðu barnafólks, aldraðra og öryrkja eða mæta miklum húsnæðisvanda. Tryggja verður húsnæðisframboð á viðráðanlegum kjörum um allt land og að búið verði betur að öldruðum og öryrkjum og barnafólki og fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hækkað skatta á almennt launafólk undanfarin 4 ár og lækkað skatta á tekjuhæstu tíu prósentin. Þeir hafa lækkað barnabætur og vaxtabætur og hækkað virðisaukaskatt á matvæli. Staðreyndirnar tala sínu máli.

Við viljum þvert á móti ekki hækka skatta á almennt launafólk heldur að þeir tekjuhæstu greiði meira til samfélagsins. Það er hægt að jafna lífskjörin í landinu með ábyrgum og skynsömum hætti án þess að skattleggja almennt launafólk. Til að mynda með auknum arðgreiðslum úr bönkunum, auðlegðarskatti, auknu skattaeftirliti og hærri veiðigjöldum á stórútgerðina.

Við viljum gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og útfærslan á að stýrast af hagsmunum allra byggða í landinu í endurúthlutun aflaheimilda til  þess að styrkja byggðirnar. Haft verður að  leiðarljósi sátt, byggðafesta og atvinnuöryggi íbúanna. Efla verður strandveiðar og skapa forsendur fyrir nýliðun. Veiðigjöldin verða að vera afkomutengd eftir útgerðarflokkum.

Vinstri græn vilja standa vörð um öflugan innlendan og sjálfbæran landbúnað, matvælaframleiðslu og matvælaiðnað á grundvelli þeirrar stefnu sem flokkurinn hefur mótað. Um leið og nýtt þing og ný ríkisstjórn tekur til starfa þarf að ráðast í aðgerðir vegna þess bráðavanda sem steðjar að sauðfjárræktinni og þar með byggð á stórum svæðum.

Fiskeldi hefur gjörbreytt þróun byggðar á sunnanverðum Vestfjörðum og í því eru miklir vaxtarmöguleikar eins og í Ísafjarðardjúpi þar sem greinin á mikla framtíðarmöguleika . Styðja þarf vel við þróunarstarf og rannsóknir og skapa stranga lagaumgjörð og reglur fyrir greinina. Tryggja þarf rétt sveitarfélaga til að skipuleggja haf- og strandsvæði og efnahags- og samfélagsleg áhrif eldis skulu metin á líkan hátt og áhrif á náttúruna. Stjórnvöld verða að hvetja til framþróunar og nýsköpunar í eldislausnum sem miða að hámarksnýtingu hliðarafurða, verndun villtra stofna og viðkvæmrar náttúru, ásamt því að hámarka dýravelferð og gæði afurða.  VG vill að fyrirtæki, sem stunda eldi í sjó, greiði fyrir nýtingu sjávar líkt og um lóðaleigu væri að ræða.

Þetta ásamt öðrum brýnum verkefnum bíður vinstri félagshyggjustjórnar sem vonandi fær tækifæri til að sýna landsmönnum að við getum gert miklu betur í okkar góða landi því það eiga allir að geta búið við mannsæmandi kjör og búið við sambærileg búsetuskilyrði.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Höfundur er alþingismaður og skipar 1. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.

 

DEILA