Hvessir í kvöld með talsverðri rigningu

Skammt austan við Ísland er nú 963 millibara lægð. „Nú kunna einhverjir að hafa sopið hveljur við að heyra svo lága þrýstitölu, en merkilegt nokk sleppa flestir landsmenn nokkuð vel frá þessari lægð,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Illu heilli verður mesta hvassviðrið á Vestfjörðum en aðrir landshlutar sleppa með strekking í mesta lagi.

Það verða helst Vestfirðir sem fá hvassvirði en aðrir landshlutar sleppa með strekking í mesta lagi. Lægðinni fylgir rigning og eins og vera ber í norðanátt verður hún mest á norðanverðu landinu. Það mun þó einnig rigna sunnanlands þegar myndarlegt úrkomusvæði lægðarinnar dreifir úr sér suður yfir heiðar. „Þó áttin sé norðlæg, kólnar ekki á landinu, enda er um að ræða milt loft sem ferðast hefur sunnanað með lægðinni. Þegar veðurfræðingar leyfa sér að tala frjálslega er slík norðanátt stundum nefnd „bakflæði“,“ segir veðurfræðingurinn.

Á morgun grynnist lægðin, en nær þó að viðhalda allhvössum vindi á Vestfjörðum og rigningu norðanlands. Sunnan megin á landinu verður þokkalegt veður eða fremur hægur vindur og þurrt fram eftir degi, en þar hvessir annað kvöld og fer að rigna þegar skil næstu lægðar koma inn á landið.

smari@bb.is

DEILA