Hvers vegna ég styð Viðreisn.

Gísli Halldór Halldórsson, verðandi bæjarstjóri Árborgar.

Við lifum á tímum umróts í íslenskum stjórnmálum. Flokkar koma og fara. Reglulega gýs upp reiði vegna misheppnaðrar framgöngu stjórnmálamanna og fólk lýsir vonbrigðum yfir þróun mála. Mikill skortur er á pólitískri forystu og trúverðugleika. Stundum veit fólk varla hvert skal beina spjótum til að hreyfa stjórnmálin fram á veginn – í eitthvert ásættanlegt ástand. Grimmilegar orrahríðir á Facebook án nokkurrar sýnilegrar niðurstöðu eru daglegt brauð.

Það sem vantar sárlega er stefnufesta og heilindi. Að unnið sé á grunni lýðræðislegra sjónarmiða sem halda til lengri tíma. Að hagsmunir þjóðarinnar séu alltaf í forgrunni – að atvinnumál, umhverfismál, innflytjendamál og önnur mál séu unnin með þjóðarheildina í huga. Vinsæl dægurmál koma og fara en verða sjaldan til að ná fram grundvallarbreytingum. Áfengi í búðir, lögleiðing kannabis eða jafnvel hin mjög svo brýnu flugvallarmál í Reykjavík eru í raun dægurmál og þegar þau hafa verið afgreidd þá hafa íslensk stjórnmál samt ekkert endilega breyst.

Almenningur þarf að fá að upplifa að stjórnmálaflokkar séu að vinna í þágu þjóðarinnar allrar – þannig að ekki liggi að baki duldir hagsmunir sem leiða til annarrar niðurstöðu en búið var að lofa, annarrar niðurstöðu en þjónar almenningi.

Loforð Viðreisnar er að „almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum.“ Þetta skiptir öllu máli.

Ástæða þess að Vinstri grænir og Samfylking gátu ekki lagt til atlögu við kvótakerfið árið 2009 var að of margir þingmenn þeirra voru með hagsmuni útgerðarinnar á bakinu. Reyndar má lofa þá ríkisstjórn fyrir að koma á strandveiðunum, strax árið 2009, en lengra varð ekki komist þá. Hinir gömlu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eru svo þjakaðir af hagsmunagæslu að þaðan verður enga leiðréttingu hægt að sækja í nálægri framtíð – frekar en síðustu þrjátíu ár.

Þorgerður Katrín, núverandi formaður Viðreisnar, minntist á það við mig í samtali okkar síðasta vetur hversu mikið frelsi það væri að geta beitt sér í sjávarútvegsmálum án þess að vera bundin á klafa hagsmunaaflanna! Þetta var í miðju sjómannaverkfallinu, en Þorgerður Katrín hafði í þeirri sömu viku opnað tímabundna skrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins á Vestfjörðum.

Í orðum Þorgerðar Katrínar kristallast tilgangur Viðreisnar – að almannahagsmunir gangi framar sérhagsmunum. Þess vegna styð ég Viðreisn til Alþingis.

Gísli Halldór Halldórsson,

Höfundur er í 7. sæti á lista Viðreisnar í Norðvestur kjördæmi.

DEILA