Hafró þarf að leigja skip í rækjurannsóknir

Bjarni Sæmundsson RE.

Rækjurannsóknir í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði hafa frestast vegna bilunar í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni RE. Leggja átti af stað í leiðangurinn fyrir rúmri viku þegar bilunin kom upp og er verður skipið úr leik í nokkrar vikur. Bjarni Sæmundsson er kominn vel til ára sinna, var smíðaður í Þýskalandi árið 1970 og afhentur Hafrannsóknastofnun sama ár. Stofnunin hefur bent á það lengi að þörf er á nýju skipi til að leysa Bjarna af til frambúðar. Eins og áður segir getur Hafró bjargað mælingum í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi með leiguskipi en Sigurður Guðjónsson, forstjóri stofnunarinnar, segir í samtali við RÚV að staðið hafi til að mæla rækjur víðar en því verði sleppt núna. „En við höfum meiri áhyggjur af framhaldinu ef bilanir halda áfram að tefja og trufla leiðangra. Skipið er úti í um 200 daga á ári þannig að það verður erfitt að brúa það bil ef það verður mikið úr leik,“ segir Sigurður.

smari@bb.is

DEILA