Get ég orðið að liði?

Ákvörðun mín að sækjast eftir oddvitasæti í Norðvesturkjördæmi í komandi þingkosningum hefur komið ýmsum á óvart, enda kannski ekki algengt að bæjarfulltrúi á suðvesturhorninu óski eftir umboði til að vinna öðru kjördæmi gagn á þingi. Ég hef hins vegar sjaldnast fetað troðnar slóðir og tel mikilvægt að fólk hugsi og stígi út fyrir kassann, út fyrir þægindahringinn, alls staðar þar sem kostur gefst. Glöggt er gests augað.

Framtíðin ber með sér nýtt atvinnulíf og breyttar aðferðir. Til viðbótar við styrkingu hefðbundinna greina þarf að tryggja að ný þekking, ný störf og ný tækifæri standi fólki í Norðvesturkjördæmi til boða líkt og annars staðar á landinu. Forsendur fyrir því eru traustar samgöngur, fjölbreytt húsnæðisval og öflug nærþjónusta. Þetta þrennt þarf sérstaklega að höfða til ungs fólks, bæði þess sem hefur fæðst og alist upp á svæðinu og hinna sem geta hugsað sér búferlaflutninga til lengri eða skemmri tíma.

Ég hef ýmislegt til brunns að bera sem gæti nýst íbúum Norðvesturlands sem liðsauki á þingi. Þar má nefna víðtæka reynslu af vinnumarkaðsmálum, frá því ég fór fyrir launþegasamtökum í samningagerð og fleiri hagsmunastörfum sem formaður BHM. Jafnframt beina innsýn í störf á sviði starfsendurhæfingar, atvinnuleysismála, almannatrygginga og lífeyrismála, eftir stjórnarsetu í Virk, Atvinnuleysistryggingasjóði, Tryggingastofnun og LSR. Sú reynsla hefur mótað afstöðu mína í málefnum ungs fólks á vinnumarkaði, sem og eldri kynslóða hvað varðar réttindi á efri árum.

Ég hef einnig fjölbreytta reynslu sem heilbrigðisstarfsmaður, bæði á Landspítala, innan Háskólans og í rekstri eigin stofu sem sjúkraþjálfari og hef unnið ýmiskonar frumkvöðlastarf á því sviði. Þverfaglegt samstarf heilbrigðisstétta er mér einkar hugleikið, með áherslu á öfluga nærþjónustu og forvarnir.

Ég óska eftir stuðningi kjósenda í Norðvesturkjördæmi og tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að auka hlutdeild þessa mikilvæga svæðis í þeirri hröðu þróun framtíðartækifæra sem nú á sér stað. Ég vil verða að liði.

Guðlaug Kristjánsdóttir

DEILA