Framsókn og Píratar tapa manni

.

Mikil endurnýjun yrði á þingliði samkvæmt nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Þegar niðurstöðu skoðanakönnunarinnar er raðað niður á kjördæmi sést að bæði VG og Samfylking eru í sókn í Norðvesturkjördæmi miðað við kosningarnar 2016. Framsóknarflokkurinn tapar rúmlega helming af fylgi sínu, Píratar dala nokkuð og Sjálfstæðisflokkurinn gefur litillega eftir. Miðflokkurinn kemur inn í sínar fyrstu kosningar af miklum krafti og nær auðveldlega inn manni.

Hafa ber í huga að við útreikning á fylgi flokka eftir kjördæmum og skiptingu þingsæta eru stundum fáir á bak við tölurnar. Vikmörk eru þá nokkuð há.

Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í kjördæminu með 28,6 prósent, en flokkurinn fékk 29,5 prósent í kosningunum fyrir ári. Miðað við þetta heldur Sjálfstæðisflokkurinn sínum þremur þingmönnum. Vinstri græn mælast með 23,6 prósent, bæta við sig 5,6 prósentustigum frá því í fyrra sem og einum þingmanni. Fylgi Samfylkingarinnar tvöfaldast milli ára, fer úr 6,3 í 12,4 prósent, en það nægir ekki til að bæta við öðrum þingmanni. Miðflokkurinn mælist með sama fylgi og Samfylking og nær inn einum þingmanni. Fylgi Framsóknarflokksins rúmlega helmingast milli kosninga. Í fyrra fékk flokkurinn 20,8 prósent en fær nú 9,3 prósent og missir einn þingmann.

Píratar fá 6,8 prósent en fengu 10,9 prósent í kosningunum í fyrra og flokkurinn tapar þingmanni kjördæmisins. Viðreisn mælist með 1,2 prósent, niður úr 6,2 prósentum í fyrra. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist ekkert, 0,0 prósent, en flokkurinn fékk 3,5 prósent í fyrra.

Ef niðurstaða kosninganna verður á þessa leið verða þingmenn kjördæmisins þessir:

Haraldur Benediktsson (D)

Teitur Björn Einarsson (D)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (D)

Lilja Rafney Magnúsdóttir (V)

Bjarni Jónsson (V)

Guðjón S. Brjánsson (S)

Bergþór Ólason (M)

Ásmundur Einar Daðason (B)

smari@bb.is

DEILA