Eitt samfélag fyrir alla

Arna Lára Jónsdóttir

Við stöndum frammi fyrir ýmsum brýnum verkefnum sem nauðsynlegt er að ráðast í svo við getum tekist á við framtíðina með öllum sínum tækifærum.

Við frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi höfum lagt áherslu á nokkur mál sem við teljum afar brýnt að komist í framkvæmda til að bæta lífsskilyrði fólks.

Jafnrétti til náms í öflugu menntakerfi. Efnahagur má aldrei ráða möguleikum til menntunar. Bestu skólakerfi heims eru þau sem leggja áherslu á jöfnuð þannig að félagsleg og fjárhagsleg staða nemenda hafi ekki áhrif á möguleika þeirra til góðrar menntunar. Liður í árangursríku skólastarfi er að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Nú geta nemendur sem eru 25 ára eða eldri ekki verið öruggir um að fá inngöngu í framhaldsskóla og þeim vísað í dýrt einkarekið nám, ætli þeir að sækja sér aukna menntun og styrkja stöðu sína. Þessu ætlum við að breyta.

Höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og bætum heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu. Eitt af grunnstefum jafnaðarmanna er að heilbrigðisþjónusta sé rekin af hálfu hins opinbera til að tryggja að allir, óháð efnahag, eigi völ á bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Samfylkingin ætlar að lækka kostnaðarþáttöku sjúklinga með það lokamarkmið að heilbrigðisþjónustan verði gjaldlaus. Að lenda í veikindum á ekki að setja fjárhag fjölskyldna og einstaklinga í uppnám.  Með aukinni sérhæfingu læknisþjónustu sem fer fram á Landsspítalanum er nauðsynlegt að standa vörð grunnheilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni og efla heilsugæsluna.

Aukinn stuðningur við ungar fjölskyldur. Við verðum að fjárfesta í fólki. Yfir 6000 börn líða skort í samfélaginu. Það er ekki boðlegt í einu ríkasta landi heims. Helmingur einstaklinga er dottinn úr vaxtabótakerfinu og fjórða hver fjölskylda er dottinn úr barnabótakerfinu. Við breytum þessu með því að tvöfalda barnabætur og vaxtabætur.

Stórsókn gegn ofbeldi. Samfylkingin ætlar að fara í stórsókn gegn hvers kyns ofbeldi, kynferðisofbeldi, netofbeldi sem og heimilisofbeldi. Í þennan málaflokk ætlum við að setja einn milljarð króna árlega í næstu fjögur árin  Það þarf að efla löggæsluna og gera málsmeðferð ofbeldisbrota markvissari. Það gerum við með því að fjölga lögregluþjónum og hækka launin. Fræðsla og forvarnir gegna lykilhlutverki í baráttunni gegn ofbeldi.  Við þurfum að auka fræðslu til brotaþola og gerenda í nútíma og framtíð sem mun án efa hafa áhrif og fækka ofbeldisbrotum.  Samræma þarf móttöku þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis um allt land og efla faglega aðstoð. Þá þarf að tryggja brotaþolum gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu.

Stór verkefni framundan. Á Vestfjörðum og í kjördæminu öllu er gríðarleg stór innviðaverkefni framundan. Uppbygging Dynjandisheiði og frekari vegbætur í Arnarfirði, Vestfjarðarvegur 60, veglagning um Veiðileysuháls, Álftafjarðargöng, vegur um Vatnsnes, nýtt flugvallarstæði fyrir norðanverða Vestfirði, hafnarframkvæmdir, fjarskipta og ljósleiðaravæðing.  Þau framlög sem sitjandi ríkisstjórn gerir ráð fyrir til samganga og fjarskipta eru of lítil. Það hamlar eðlilegri þróun atvinnulífsins og rýrir búsetuskilyrði víðs vegar um landið. Ástand vegakerfisins er orðið bágborið, auka þarf nýframkvæmdir og viðhald ekki síst m.t.t. fjölgunar ferðamanna á vegum landsins. Til auka samkeppnishæfni fyrirtækja og svæða þurfa innviðirnir að vera í lagi. Það skiljum við jafnaðarmenn.

Tryggjum jafnaðarmönnum góða kosningu um allt land og látum hjartað ráða för

Arna Lára Jónsdóttir, skipar 2. Sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

DEILA