Bændur efast um gagnsemi tillagna ráðherra

83% sauðfjárbænda telja að tillögur landbúnaðarráðherra séu ekki til þessa fallnar að leysa þann bráðavanda sem steðjar að sauðfjárræktinni. Þetta kemur fram í nýlegri könnun sem Landssamtök sauðfjárbænda gerði meðal félagsmanna sinna. Greint er frá könnuninni í Bændablaðinu sem kom út í dag. Einnig var spurt hvort sauðfjárbændur teldu líklegt að þeir myndu nýta sér þann möguleika í framkomnum tillögum ráðherra að hætta sauðfjárrækt haustið 2017 og halda 90% af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í 5 ár ef það byðist. Svarið var mjög afgerandi og ótvírætt. Kom þar fram greinilegur og ríkur vilji sauð- fjárbænda til að halda áfram búskap þótt á móti blási. Þannig sögðust 80,7% bænda ekki, eða líklega ekki, vilja nýta sér slíkan möguleika ef hann stæði til boða. Jafnframt kom þar fram að 8,2% bænda svöruðu þessari spurningu játandi og um 5% töldu það mjög líklegt. Talið er að í þeim hópi sé talsvert af yngstu bændunum sem eru oft einnig mjög skuldsettir.

Í könnuninni er einnig leitað álits félagsmanna á hugmyndum um að stofna eitt, sameiginlegt sölufyrirtæki fyrir afurðir sínar hér á landi annars vegar, og möguleikanum á að stofna eitt, sameiginlegt útflutningsfyrirtæki fyrir íslenskt kindakjöt hins vegar. Meirihluti bænda er fylgjandi báðum þessum hugmyndum.

Nær 57 prósent telja það  mjög (30,2%) eða frekar (26,7%) skynsamlegt að stofna sameiginlegt sölufyrirtæki fyrir innanlandsmarkað. Enn meiri samhugur er um stofnun sameiginlegs útflutningsfyrirtækis, sem hartnær 80 prósent bænda telja mjög (48,5%) eða frekar (30,3%) skynsamlegt skref.

smari@bb.is

DEILA