Amsterdam-maraþon

Guðbjörg Rós Sigurðardóttir glaðbeitt í hlaupinu

Riddarar Rósu eru svo sannarlega áberandi og mikilvægur félagsskapur á Ísafirði og má sjá hópa á þeirra vegum skokka léttfætt um bæinn. Í október fór dágóður hópur til Amsterdam til að prófa Hollenskar gangstéttar og hér að neðan er lýsing Guðbjargar Riddara á ferðinni og glæsilegum árangri hópsins.

Riddarar Rósu ákváðu fyrir um ári síðan að fara í hlaupaferð saman og var Maraþon í Amsterdam fyrir valinu. Þar er  hægt  að hlaupa þrjár mismunandi vegalengdir og hentar því breiðum hópi hlaupara. . Áður hafði hluti af Riddurum  skráð sig í maraþon í Berlín en að lokum voru það 42 Riddarar og makar sem héldu af stað til Amsterdam um miðjan október til að hlaupa maraþon, hálfmarþon eða 8 km hlaup.

Riddarar  Rósu æfa undir stjórn Mörthu Ernstsdóttur en hún sendir hlaupafélögum  prógramm sem farið er  eftir undir stjórn nokkurra Riddara. Æfingarnar í vetur snérust aðallega um að styrkja sig og hlaupa á brettinu en svo í sumar hófst undirbúningurinn fyrir alvöru þegar hægt var að byrja  að hlaupa úti. Að æfa fyrir maraþon er mun  tímafrekara en að hlaupa styttri vegalengdir s.s. hálf-maraþon eða 10 kílómetra og því varð að nýta tímann vel ogoft var farið að hlaupa fyrir vinnu á morgnana  og eldsnemma um helgar til að eiga daginn með fjölskyldunni. Einhverjir höfðu hlaupið  maraþon áður og gátu dreift visku sinni til hlaupafélaganna , sagt hvað mætti og hvað ekki og sköpuðust ansi skemmtilegar umræður í þessum löngu hlaupum okkar. Það fer nefninlega heilmikil jafningjafræsla fram á hlaupaæfingum. Við æfðum vel saman í sumar og tókum þátt í keppnum til að undirbúa okkur enn betur. Hlaupahátíðin okkar (Hlaupahátíð Vestfjarða)er góður undirbúningur fyrir svona stórt hlaup sem og Reykjavíkurmarþonið í lok ágúst. Þar fjölmenntu Riddarar ogkom  árangur sumarsins  berlega í ljós.

Ferðin til Amsterdam byrjaði vel, allir tilbúnir í slaginn og mættu ferskir á Expoið þar sem númerin voru afhent og einnig var hægt að gera góð kaup á hinum ýmsu hlaupavörum sem  alger nauðsyn er að eiga… Við tókum því rólega dagana fyrir hlaup, aðeins farið í búðir og borgin skoðuð en mest var reynt að „hlaða“ með hinum ýmsu góðgæti í mat og drykk

Miklum hita var spáð á sjálfan hlaupadaginn og því mikilvægt að vera vel undirbúinn, drekka vel dagana á undan, bera á sig sólarvörn og drekka vel í hlaupinu sjálfu. Þetta leit vel út um morguninn, hitinn ekkert of mikill en heiðskýrt sem gaf ekki góða von um íslenskt veður þegar leið á hlaupið.

Við mættum tímanlega í startið og gerðum það sem gera þarf fyrir svona hlaup, kamarinn vel nýttur, líkaminn smurður með vaselíni til að forðast núningssár, farið yfir plan dagsins og allt gert klárt. Stemningin var góð og allir fóru á sína staði í startinu.  Hlaupið byrjaði vel, hitinn í meðallagi en þegar hádegið nálgaðist fór hitinn aðeins yfir mörkin og erfitt að finna skjól fyrir sólinni. En Riddarar láta ekki smá hita hafa áhrif á sig og kláruðu allir hlaup sín með stæl þrátt fyrir sjúkrabíla og sírenur um alla braut, 19 kláruðu maraþon, 7 hálfmaraþon og einn 8 km hlaupið.

Eftir hlaupið hittumst við svo öll í stúkunni á Ólympíuleikvanginum í Amsterdam en þar hófust og enduðu hlaup dagsins. Svolítið erfitt var að ganga upp allar tröppurnar eftir átökin í hlaupinu og enn verra að fara niður aftur en allt gekk vel og vorum við dugleg að fagna þeim sem komu í mark og vorum vel sýnileg með íslenska fánann okkar og huhhhhh fagnið

Um kvöldið fórum við svo öll saman út að borða þar sem tekin var ákvörðun um næstu ferð því allir voru sammála um að þetta þyrfti að endurtaka, hvert skal fara er ekki komið á hreint  en kannski verður það ákveðið á uppskeruhátíðinni okkar um næstu helgi…..

This slideshow requires JavaScript.

DEILA