Áhrif sýrustillandi lyfja á krabbamein í kastljósi Vísindaportsins

Óskar Örn Hálfdánarson

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á morgun kynnir ísfirski líffræðingurinn Óskar Örn Hálfdánarson doktorsverkefni sitt þar sem hann er að rannsaka möguleg áhrif sýrustillandi lyfja á krabbameinsfrumur.

Eitt af því sem er einkennandi fyrir krabbameinsæxli er lágt sýrustig sem umlykur krabbameinsfrumur. Ýmislegt bendir til þess að súrt æxlisumhverfi sé mikilvægur þáttur í framþróun krabbameina og í viðnámi frumna gegn krabbameinslyfjameðferðum. Prótónupumpuhemlar (PPI lyf) eru sýrustillandi lyf sem eru mikið notuð á Íslandi. Fyrri rannsóknir gefa vísbendingar um að hægt sé að nýta sýrustillandi virkni þeirra til að hafa áhrif á sýrustigið umhverfis krabbameinsfrumur og hemja æxlisvöxt. Markmiðið með þessu verkefni er að gera faraldsfræðilega rannsókn til þess að kanna möguleg tengsl á milli PPI lyfjanotkunar og krabbameinsáhættu. Doktorsverkefnið er unnið við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Lífvísindasetur Háskóla Íslands.

Óskar Örn er fæddur og uppalinn að mestu leyti á Ísafirði. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Ísafirði, B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og M.S. prófi í líf- og læknavísindum frá sama skóla. Óskar Örn vann meistaraverkefni sitt á frumulíffræðideild rannsóknastofu Landspítalans í meinafræði sem fól í sér rannsókn á ættlægu brjóstakrabbameini og leit að stökkbreytingum í genum sem gætu útskýrt hækkaða áhættu sumra kvenna á því að greinast með meinið. Undanfarin ár hefur hann starfað fyrir mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík. Vinnan við doktorsverkefnið hófst haustið 2015.

smari@bb.is

DEILA