Aðgengi að heilbrigðisþjónustu

23. tölublað 34. árgangur

23. tölublað Bæjarins besta mun smeygja sér inn um lúgur í dag og á morgun og að þessu sinni er það helgað Birki Snæ, fjölskyldu hans og öllum öðrum veikum einstaklingum landsbyggðarinnar. Birkir Snær er tæplega tveggja ára og berst við alvarlegan sjúkdóm sem er honum og fjölskyldu hans þungbært.

Daglega berast fréttir af gríðarlegum kostnaði sem mætir einstaklingum sem greinast með alvarlega sjúkdóma en það sem mætir veikum einstaklingum af landsbyggðinni er margföld byrði. Foreldrar Birkis Snæs fylgja sínu barni í meðferðir til Reykjavíkur þar sem þjóðarsjúkrahúsið er, ferðunum fylgir bæði vinnutap og ferða- og uppihaldskostnaður sem aðeins að litlu leyti er bætt. Þetta hlýtur að vera alvarlega brot á jafnræði og með ólíkindum að ástand sem þetta hafi verið liðið svo lengi. Það myndi væntanlega heyrast hljóð úr horni ef til dæmis öllum hjartasjúklingum væri gert að ferðast nánast á eigin kostnað á Kópasker eða Flateyri til að leita sér læknismeðferðar en við þetta mega veikir einstaklingar landsbyggðarinnar búa.

Öll framboð í Norðvesturkjördæmi voru beðin um að gera grein fyrir stefnu sinna flokka í þessum málaflokki og þá var ekki verið að spyrja um skoðun þeirra persónulega, það liggur ljóst fyrir að frambjóðendur í þessu kjördæmi gera sér grein fyrir alvarleika málsins, vandinn liggur í að koma málinu í farveg innan sinna flokka, þingmenn eins kjördæmis gera lítið einir.

Í blaðinu má lesa svör Gylfa Ólafssonar í Viðreisn, Evu Pandóru Baldursdóttir Pírata, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur í Framsóknarflokknum og Haraldar Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum. Hér er hlekkur á rafræna útgáfu blaðsins. Til viðbótar ritaði Arna Lára Jónsdóttir grein sem birt var á bb.is þann 16. október.

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta verður að hafa í för með sér að sjúklingar af landsbyggðinni geti sótt sér læknisþjónustu á Þjóðarsjúkrahúsið, án kostnaðar, rétt eins og aðrir íbúar þessa lands.

Bryndís Sigurðardóttir

DEILA