Að fæðast í röngum líkama

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á föstudag verður fjallað um málefni sem mörgum kann að þykja viðkvæmt en er engu að síður mikilvægt umfjöllunarefni. Ísfirðingurinn Veiga Grétarsdóttir fæddist í líkama drengs en fann snemma að þar átti hún ekki heima. Hún mun deila reynslu sinni í Vísindaporti og fjalla m.a. um kynleiðréttingarferlið hér á landi, sem hún hóf fyrir u.þ.b. þremur árum.

Í erindi sínu mun Veiga, sem áður hét Grétar Veigar Grétarsson, einnig fjalla um þunglyndið, fordómana og vanlíðanina sem fylgir því að geta ekki verið maður sjálfur og þá ánægju sem fylgdi því þegar hún gat loks verið hún sjálf. Einnig mun hún segja frá muninum á því að vera kona í stað karls í samfélagi.

Veiga Grétarsdóttir er fædd á Ísfirði og ólst þar upp sem strákur. Hún flutti búferlum frá Ísafirði rétt eftir tvítugt en er nú flutt aftur heim eftir tuttugu ára fjarveru og starfar við Grunnskólann á Ísafirði. Í millitíðinni hefur hún búið á Akureyri, í Reykjavík, Noregi og nú síðast á Reyðafirði. Veiga er menntaður rennismiður og hefur unnið sem slíkur megnið af starfsævinni eða í um tvo áratugi. Einnig hefur hún starfað við smíðar og bílaviðgerðir ásamt því að vera menntuð sem förðunarfræðingur.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða  á föstudaginn frá kl 12.10-13.00 og er opið öllum áhugasömum.

smari@bb.is

DEILA