Að einangra höfuðborg

Jón Þór Þorvaldsson

Flugið er lífæð okkar í viðskiptum við umheiminn og flugið er afar mikilvægur þáttur í samgöngum og byggðastefnu. Flugið er öruggasti og hagkvæmasti ferðamáti sem þekkist enn sem komið er. Hann er einnig sá fljótlegasti ef ferðast þarf um lengri veg. Það er ekki að ástæðulausu að allar borgir sem koma því við, eru að byggja upp flugvelli eða styrkja þá flugvelli í sessi sem þjóna viðkomandi borgum. Nýleg dæmi utan úr heimi sýna að margar borgir telja svo brýnt að haldið sé uppi flugsamgöngum að borgirnar styrkja flugfélög sem tilbúin eru til að þjónusta þá sem þurfa að komast til og frá borgunum.

Nú hefur meirihlutinn í borginni þ.e. Samfylking, VG, Píratar og Björt framtíð róið að því öllum árum að leggja Reykjavíkurflugvöll af. Þrengt að vellinum og stöðvað allar framkvæmdir til viðhalds á mannvirkjum tengdum vellinum. Skilningur þessara flokka á innviðum samfélags kristallast í þessum vinnubrögðum.

Þeim rökum flugvallarandstæðinga hefur verið haldið á lofti að flugvöllurinn þurfi að víkja svo að borgarsamfélagið fái þrifist. Þau rök falla dauð niður um leið og málið er krufið. Til að borgarsamfélag geti dafnað, rétt eins og sjálfstæðar þjóðir, þá eru greiðar samgöngur og aðflutningsleiðir fyrir fólk vörur og þjónustu grundvallaratriði. Enda er það það fyrsta sem gert er í hernaði og stríði, að tryggja samgöngu og flutningsnet eigin herja en eyðileggja samgöngumannvirki og flutningsæðar andstæðinganna. Slíka eyðileggingu er einsdæmi að farið sé í gegn sjálfum sér á friðartímum en er lýsandi fyrir vinnubrögð þeirra sem hafa beitt sér fyrir lokun Reykjavíkurflugvallar.  Þessi vinnubrögð eru aðför að höfuðborginni, landsbyggðinni og að mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarbúsins sem enn eru að vaxa, flugi og ferðaþjónustu.

Miðflokkurinn mun standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og flugvöllurinn fer ekki neitt ef ríkið gefur ekki heimild til þess. Hafi borgin hugsað sér að kæfa völlinn með því að þrengja að honum þannig að ekki sé hægt að starfrækja flug og tengda starfsemi, þá kallar það á lagasetningu af hálfu ríkisins um skipulagsmál höfuðborgarinnar.  Flugvöllurinn er nefnilega ekki einkamál einhvers sveitarfélags sem heitir Reykjavík, hann varðar alla landsmenn þar sem Reykjavík er höfuðborg landsins, Hún ber ábyrgð þar að lútandi. Allir landsmenn eiga rétt á greiðum aðgangi að hátæknisjúkrahúsum, æðstu menntastofnunum og stjórnsýslu landsins á hagkvæmasta og öruggasta hátt sem völ er á.

Flugvöllurinn er mikilvægur varaflugvöllur fyrir millilandaflug og þjónar gríðarlega viðamiklu hlutverki í öryggismálum flugsins. Við megum ekki gleyma að við Íslendingar eru með 7-unda stærsta loftstjórnarrými í heiminum. við hirðum af því arð en berum jafnframt skyldur í þeim efnum er varða leit björgun og neyðarþjónustu. Hlutverk flugvallarins í almannavörnum ætti að vera hverju mannsbarni ljóst sem býr á eldfjallaeyju í norðurhöfum. Það vill gleymast líka að hann er mennta og þekkingarstofnun. Á Reykjavíkurflugvelli eru menntaðir flugmenn, flugvirkjar og flugumferðastjórar. Allt góð og vel launuð störf sem skila sér beint í þjóðarbúið. Flugiðnaðurinn er einn burðarás þjóðarinnar í gjaldeyrisöflun í dag. Ekki mundi nokkrum hugsandi manni detta í hug að loka Háskóla Íslands til að þétta mætti byggð.

Flugvöllurinn og tengd starfsemi veltir milljörðum á ári hverju, skapar mörg hundruð störf og styður við vöxt og nýsköpun bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Miðflokkurinn ætlar að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

X-M

Jón þór Þorvaldsson

3ja sæti Miðflokksins í NV kjördæmi

 

 

 

DEILA