Vill boða fleiri aðila á fund atvinnuveganefndar

Sigurður Ingi Jóhannsson. Mynd: mbl.is / Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur óskað eftir því við Pál Magnússon formann atvinnuveganefndar að boðaðir yrðu fleiri aðilar til að koma með viðbrögð við skýrslu ráðherra um stefnumótun í fiskeldi.

„Ég tel nauðsynlegt að víðtækari umfjöllun eigi sér stað um skýrsluna, forsendur hennar og niðurstöður“, segir Sigurður Ingi sem hefur óskað eftir að fulltrúar sveitarstjórnar Breiðdalshrepps, Djúpavogshrepps, Bolungarvíkurkaupsstaðar, Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar verði boðaðir á fund atvinnuveganefndar. Jafnframt óskaði Sigurður Ingi eftir að fulltrúar Landsamtaka fiskeldisfyrirtækja, Háafells ehf., og Laxar ehf. væru boðaðir.

Sigurður Ingi segir enn fremur mikilvægt að í framhaldi af þessum fundum þurfi að fá fleiri sjónarmið fyrir nefndina m.a. um vísindalegan grunn áhættumats.  Líffræðilegar sem og markaðslegar forsendur fyrir geldlaxi.

bryndis@bb.is

DEILA