Þjóðleikhúsið frumsýnir á Ísafirði

Oddur og Siggi gera víðreist um landið í haust.

Þjóðleikhúsið frumsýnir verkið Oddur og Siggi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á þriðjudaginn og mun í kjölfarið halda hringinn í kringum landið og bjóða börnum á aldrinum 10-12 ára á sýninguna.

Leikritið Oddur og Siggi er nýtt íslenskt leikrit sem Björn Ingi Hilmarsson hefur samið í samstarfi við leikara í sýningunni, þá Odd Júlíusson og Sigurð Þór Óskarsson. Björn Ingi er jafnframt leikstjóri verksins en það er hugsað sérstaklega fyrir börn á aldrinum 10-12 ára og verður sýnt á yfir 20 stöðum á landsbyggðinni á þessu leikári, börnum að kostnaðarlausu. Með þessu er leikhúsið að gefa börnum á öllu landinu kost á að njóta leiklistar óháð búsetu og efnahag.

Oddur og Siggi hafa verið bestu vinir í 10 ár og bjóða okkur í veislu þar sem þeir fagna áratuga vinskap sínum og skemmta okkur eins og þeim einum er lagið. Þeir rifja upp ýmislegt úr sinni vinskapartíð. Grunnskólaárin eiga að vera skemmtilegur tími, ekki satt? En það getur orðið flókið að eiga vini. Stundum verulega flókið. Þá getur verið gott að búa sér til sinn eigin draumaheim, til að komast burt úr veruleikanum. En maður getur víst ekki alltaf verið þar, eða hvað? Oddur og Siggi er skemmtileg, sorgleg og hjartnæm sýning, sem getur aukið meðlíðan og skilning, þar sem er fjallað af einlægni og húmor um flókin samskipti í heimi skólabarna.

Oddur og Siggi heimsækja eftirtalda staði:

Ísafjörð • Hólmavík •  Patreksfjörð • Akureyri • Mývatnssveit • Húsavík • Raufarhöfn • Vopnafjörð • Eskifjörð • Egilsstaði  • Fjallabyggð • Blönduós • Skagafjörð

smari@bb.is

DEILA