Segir bæinn brjóta útboðsreglur

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Nýverið ákvað bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að ganga til samninga við Vestfirska verktaka efh. um byggingu þjónustuhúss á tjaldsvæðinu á Þingeyri. Ákveðið var að skipta verkinu í tvo hluta, þar sem hluti þess verður unnin á þessu ári og hluti á næsta ári og á húsið að vera tilbúið fyrir næsta vor. Ástæða skiptingarinnar er að ekki var gert ráð fyrir nema 20 milljónum kr. til verksins í ár, en tilboð Vestfirskra verktaka hljóðaði upp á 32 milljónir kr.

Nú hefur hitt fyrirtækið sem bauð í verkið gert alvarlega athugasemdir við ákvörðun bæjaryfirvalda að skipta verkinu upp. Gamla spýtan ehf. bauð 36 milljóni kr. í byggingu þjónustuhússins og í bréfi frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins til bæjarrás segir að tilboð Gömlu spýtunnar hafi miðast við að verkið yrði klárað fyrir 1. desember 2017, líkt og útboðsgögn sögðu til um. Í bréfinu kemur fram að óheimilt er að breyta út af útboðsgögnum með þessum hætti.

„Þar sem miklar kröfur eru gerðar til verktaka varðandi útboð af þessu tagi, geri ég þá kröfu til Ísafjarðarbæjar að það verði farið eftir settum leikreglum og stöðlum,“ segir í bréfi Magnúsar Jónssonar, framkvæmdastjóra Gömlu spýtunnar og það tekið fram þessu máli verði fylgt fast eftir ef með þarf.

smari@bb.is

DEILA