„Sauðfjárbændur eiga líka börn“

Gunnar Bragi Sveinsson.

Ofangreind fyrirsögn er á pistill Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi, sem hann skrifaði á Facebook í gær. Þar útskýrir hann ummæli sín á Alþingi í gær, þar sem hann sagði að staða sauðfjárbænda væri ekki síður mikilvægt mál en þau sem verið væri að ræða og til stæði að afgreiða á þingi í dag. Þar á meðal væri breyting á útlendingalögum sem kæmi flóttabörnum í skjól – það væri ekki mikilvægara mál en að bjarga sauðfjárbændum.

„Hvers vegna þessi undarlega fyrirsögn á þessari færslu?“ spyr Gunnar Bragi og rekur að samið hafi verið þrjú mál sem átti að klára fyrir þinglok og tekur fram að þau séu öll mikilvæg. „Hins vegar náðist ekki samkomulag um að grípa til aðgerða vegna vanda sauðfjárbænda. Nú eru einhverjir að missa „kúlið“ og stilla því upp börn eða bændur,“ skrifar Gunnar Bragi.

Þingmálin þrjú eru breytingar á útlendingalögum, afnám uppreistar æru og kosningalögin.

„En hvers vegna segi ég að vandi sauðfjárbænda sé jafn mikilvægur og þessi þrjú mál? Mikil hætta er á að sauðfjárbændur lendi í þroti vegna afurðaverðs. Það þýðir að þeir missa jarðir sínar, húsnæði, fjölskyldur flosna upp og flytja. Ljósin hverfa í sveitinni , skólinn lokar, ferðaþjónustan leggst af og samfélagið hverfur,“ skifar hann og spyr að kannski þyki einhverjum ekkert mál að íslenskir bændur lendi í slíkum hremmingum.

„Það er mikilvægt mál að hjálpa börnum á flótta en það líka mikilvægt mál að hjálpa íslenskum bændafjölskyldum sem leggja það á sig að framleiða mat fyrir okkur hin. Ég spyr því líkt og í ræðu minni, hverjir komu í veg fyrir að sauðfjárbændur fengju aðstoð?“

smari@bb.is

DEILA