Öll skjöl verkalýðshreyfingarinnar á Héraðskjalasafnið

Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verk Vest og Jóna Símonía Bjarnadóttir forstöðumaður Safnahússins.

Skjalasafn verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum var formlega afhent Héraðsskjalsafninu Ísafirði við athöfn í Baldurshúsinu á Ísafirði fyrir helgi. Skjalasafnið telur 524 skjalaöskjur sem skráðar eru í 34 deildir verkalýðsfélaga, stofnana, fyrirtækja og samtaka sem félögunum tengjast. Safnið geymir skjöl Alþýðusambands Vestfjarða frá stofnun þess 1927 og einstakra félaga sem störfuðu innan þess, allt til stofnunar Verkalýðsfélags Vestfirðinga á árunum 2002-2005. Afhending safnsins er ein stærsta einstaka afhending sem Héraðsskjalsafninu hefur verið færð og einstök að því leyti að safnið er frágengið, flokkað og skráð þannig að það er tilbúið til notkunar fyrir fræðimenn og aðra áhugasama.

Við formlega afhendingu safnsins sagði Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga að í kjölfar þess að Verk Vest tók yfir hlutverk Alþýðusambands Vestfjarða árið 2916, hafi stjórn félagsins ákveðið að afhenda skjalasafn Alþýðusambands Vestfjarða og aðildarfélaga þess til varðveislu í Héraðsskjalasafninu og tryggja þar með örugga varðveislu og aðgang að safninu. Við flutning skrifstofu félagsins úr Baldurshúsinu var ákveðið að félagið héldi áfram því starfi sem áður fór fram á vegum ASV og léti skrá skjalasafn sambandsins, aðildarfélaga þess og skrifstofu verkalýðsfélaganna til þess tíma sem 12 félög ASV sameinuðust í Verkalýðsfélag Vestfirðinga á árunum 2002-2005. Sigurður Pétursson sagnfræðingur vann að skráningu safnsins og með honum Sigrún María Árnadóttir.

smari@bb.is

 

DEILA