Óður til kosninga

Eva Pandora Baldursdóttir

Það kólnar í lofti, haustlægðirnar koma yfir landið hver á fætur annarri, gróðurinn tekur á sig sinn fallega lit sem einkennir árstíðina og börnin fara aftur í skólann sinn. Já og svo eru auðvitað líka kosningar.

Þegar ganga á til kosninga í þriðja sinna sinn á aðeins fimm árum hlýtur að vera kominn tími til þess að staldra aðeins við og velta vöngum. Af hverju stafar þessi óstöðugleiki í stjórnmálunum?

Enn á ný hefur almenningur risið upp og látið í sér heyra og skilaboðin eru skýr. Við viljum breyta stjórnmálamenningunni. Við viljum betri vinnubrögð í stjórnmálunum, meira gagnsæi í stjórnsýslunni og við gerum þá kröfu að stjórnmálamenn starfi með hag almennings að leiðarljósi. Þjóðin á skilið að stjórnmálamenn starfi af heilum hug að því að byggja brú á milli hennar og stjórnmálanna, að stjórnmálamenn vinni af heilum hug að því að auka traust hennar til Alþingis.

Að skipta út stjórnmálamönnum eða stjórnmálaflokkum mun ekki breyta miklu nema grunngildum stjórnmálanna sé breytt, stjórnmálamenningunni sé breytt. Allir flokkar gefa fögur loforð í aðdraganda kosninga og flestir gera það af góðum hug og vilja til þess að bæta samfélagið. Þegar á hólminn er komið og flokkar jafnvel komnir í ríkisstjórn virðist oftar en ekki illmögulegt að standa við gefin loforð ýmist vegna „pólitísks ómöguleika“ eða einhverrar kerfislægrar tregðu.

Það ætti að vera krafa að stjórnmálamenn standi við gefin loforð. Ef það er ekki gert þá ætti almenningur að hafa óskoraðan rétt til þess að vera upplýstur um af hverju það er ekki hægt. Gagnsæi er lykilatriðið. Það þarf að eyða þeirri kerfislægu hneigð stjórnvalda að leyna upplýsingum fyrir almenningi til þess að vernda eigin hagsmuni. Alþingismenn starfa í umboði þjóðarinnar og því skal aldrei gleyma.

Í framtíðinni munu stjórnmál og stjórnsýsla vera gagnsæ og allar upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda munu vera tiltæk án undandráttar. Almenningur mun hafa tryggan aðgang að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða sýsla með.

Til þess að stuðla að þessari framtíð vil ég hvetja alla kjósendur, sérstaklega ungt fólk, til þess að taka framtíð sína í eigin hendur og nýta kosningarétt sinn.

Eva Pandora Baldursdóttir

Þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi

DEILA