Missa starfsfólk vegna skorts á húsnæði

Hagstofan spáir miklum íbúðafjárfestingum.

Dæmi eru um að atvinnurekendur á landsbyggðinni missi starfsfólk vegna skorts á íbúðarhúsnæði. Lágt markaðsverð kemur í veg fyrir nýbyggingar. Á fundi Íbúðalánasjóðs á Akureyri í gær var rætt um slæmt ástand í húsnæðismálum á landsbyggðinni. Frá fundinum var greint á vef RÚV. Víða í hinum dreifðu byggðum hefur fólki fjölgað en sá hængur hefur verið á að nýtt húsnæði hefur ekki fylgt. Flestar nýbyggingar eru á höfuðborgarsvæðinu og hefur hlutdeild landsbyggðarinnar í nýju húsnæði dregist verulega saman eftir hrun.

„Það eru aukin atvinnutækifæri, ferðaþjónusta hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og ekki síst úti á landsbyggðinni en á sama tíma sjá atvinnurekendur fram á að missa starfsfólk vegna þess að það er ekki til húsnæði og virðist ekkert vera í uppbyggingu,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, sérfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs.

smari@bb.is

DEILA