Miklar áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda á svæðinu og skorar á ríkisvaldið að standa við bakið á sauðfjárbændum í kjölfar lækkunar á afurðaverði. Fjöldi íbúa sveitarfélagsins úr hópi sauðfjárbænda horfa fram á þriðjungs lækkun á afurðaverði í haust og tekjuskerðingu í samræmi við það upp á tugi prósenta, í kjölfar nærri 10% lækkunar afurðaverðs á síðasta ári. Í ályktun bæjarstjórnar segir að þessar lækkanir komi harkalega niður á sveitum landsins og bitna sérstaklega á yngri bændum. „Sauðfjárræktin er mikilvæg í dreifðum byggðum landsins og ef stjórnvöld vilja halda byggðajafnvægi, er fátt sem kemur í hennar stað – fyrirsjáanleg byggðaröskun er því í uppsiglingu. Það er mikilvægt að hafa hraðar hendur við að finna leiðir til mótvægis meðan bændur vaða þessa brimskafla,“ segir í ályktuninni.

Á það er bent að í aðgerðum stjórnvalda eigi að horfa sérstaklega til þeirra landsvæða sem hafa staðið í varnarbaráttu í byggðamálum og sér í lagi þar sem eru vannýtt tækifæri í afleiddum störfum og þjónustu sem nýta mætti til styrkingar byggðum. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur t.d. að á Vestfjörðum séu miklir möguleikar í matartengdri ferðaþjónustu í hærri verðflokkum, á meðan erfiðara er fyrir efnaminna ferðafólk að sækja Vestfirði heim. Auk þess eru á Vestfjörðum möguleikar á fleiri afleiddum störfum, s.s. í tengslum við slátrun og úrvinnslu afurða.

Bókunin var samþykkt með sjö atkvæðum en Daníel Jakobsson (D) og Kristín Hálfdánsdóttir (D) sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!