Lögreglan rannsakar kynferðisbrot

Um helgina barst lögreglunni á Vestfjörðum kæra er varðar meint kynferðisbrot sem talið er hafa átt sér stað í heimahúsi þar sem gleðskapur fór fram. Einn aðili var handtekinn í tengslum við rannsókn málsins. Honum hefur verið sleppt lausum þar sem lögregla taldi ekki ástæðu til að halda honum lengur í þágu rannsóknarhagsmuna. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Á mánudagskvöld fyrir viku hafði lögreglan á Vestfjörðum afskipti af skipstjóra fiskibáts sem kom úr veiðiferð og til löndunar í höfn á norðanverðum Vestfjörðum. Þrír voru í áhöfn bátsins og reyndist lögskráningu ábótavant. Við þessi afskipti lögreglunnar vaknaði grunur um að skipstjórinn væri undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn og sleppt lausum að viðeigandi sýnatöku lokinni. Málið er til rannsóknar.

Snemma morguns þann 20. september varð eldur laus í vélarrúmi báts sem verið var að landa úr við Sundahöfn á Ísafirði. Skipverjum tókst að einangra eldinn og kom slökkvilið fljótt á vettvang og réði niðurlögum eldsins. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni. Um var að ræða bílveltu á Örlygshafnarvegi þann 19. september. Ökumaður og farþegar hlutu ekki meiðsl en bifreiðin var óökufær eftir atvikið.

Alls voru 13 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Fjórar tilkynningar bárust lögreglunni um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Rétt er að minna ökumenn á að víða í umdæminu er verið að smala fé af fjalli og því rétt að vera á varðbergi, enn frekar en áður.

smari@bb.is

DEILA