Landsbyggðin fái bætur fyrir Reykjavíkurflugvöll

Byggð í Vatns­mýr­inni yrði um 143 millj­örðum verðmæt­ari en sam­bæri­leg byggð á jaðri höfuðborg­ar­svæðis­ins, t.d. í Úlfarsár­dal. Þetta kem­ur fram í Markaðspunkt­um grein­ing­ar­deild­ar Ari­on banka en í henni eru sögð sterk rök fyr­ir því að að þeir sem beri skert­an hlut njóti góðs af því að sölu­verð íbúða á svæðinu væri hærra en á jaðrin­um.

Í grein­ing­unni seg­ir að vís­bend­ing­ar séu um að þjóðhags­lega hag­kvæmt sé fyr­ir heild­ina að flug­völl­ur­inn í Vatns­mýri víki. Þá séu sterk rök fyr­ir því að þeir sem tapi á ein­hvern hátt á því að Reykja­vík­ur­flug­velli verði lokaði fái ein­hvers kon­ar bæt­ur fyr­ir.

„Ef sölu­hagnaður íbúða á þessu svæði verður 143 millj­örðum króna hærri held­ur en hann ann­ars væri er erfitt að sjá annað en að það sé sann­gjarnt að íbú­ar á lands­byggðinni og aðrir sem treysta al­mennt meira á Reykja­vík­ur­flug­völl held­ur en meðal Reyk­vík­ing­ur­inn fái stóra sneið af þeirri köku. Þá má einnig færa rök fyr­ir því að þeir sem verða verr sett­ir á einn eða ann­an hátt eigi heimt­ingu á að njóta góðs af hærri fast­eigna­gjöld­um.“

Grein­ing­ar­deild­in met­ur að fast­eigna­verð sé al­mennt um og yfir 30% hærra í Vatns­mýr­inni en á jaðri höfuðborg­ar­inn­ar. Það þýði að virði íbúða í Vatns­mýri miðað við fast­eigna­mat sé meira en 30% hærra en á jaðri höfuðborg­ar­svæðis­ins sem að öðru óbreyttu skýrist af mis­mun­andi lóðaverði. Þessi mun­ur þýði að heild­arfa­st­eigna­mat í Vatns­mýri verði um 143 millj­örðum króna hærra í Vatns­mýr­inni.

Jafn­framt skili byggð í Vatns­mýr­inni ein­um millj­arði króna meira í fast­eigna­gjöld á ári til Reykja­vík­ur­borg­ar en byggð á jaðrin­um.

smari@bb.is

DEILA