Kemur ekki til greina að biðjast afsökunar

Arna Lára Jónsdóttir.

Það kemur engan veginn til greina að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar biðjist opinberlega afsökunar á ummælum Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Þetta segir Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans og formaður bæjarráðs. Þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga hafa krafist opinberrar afsökunar Ísafjarðarbæjar á orðum Gísla Halldórs. Þremenningarnir sátu í starfshópnum fyrir hönd Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga

„Bæjarstjórn tekur enga ábyrgð á málflutningi bæjarstjóra enda er hann fullfær um það sjálfur. Það stendur alveg skýrt að hann hefur fullt málfrelsi á fundum bæjarstjórnar,“ segir Arna Lára og bætir við henni þykja þær ályktanir sem Gísli Halldór hefur dregið af störfum nefndarinnar ekki vera úr lausu lofti gripnar.

Ummælin sem fóru fyrir brjóstið á þremenningunum féllu á fundi bæjarstjórnar í lok ágúst. Ef Ísafjarðarbær verður ekki við kröfu þeirra, sem í ljósi orða Örnu Láru verður að teljast útilokað, áskilja þeir sér rétt til að fá ummælin ómerkt með öðrum úrræðum.

„En fyrst og fremst finnst mér ótrúlegt að menn séu komnir niður á þetta plan og laxeldinu engan veginn til bóta,“ segir Arna Lára.

Bréf þremenninganna verður tekið fyrir á fundi bæjarráðs á mánudaginn.

Hér má lesa bréfið.

smari@bb.is

DEILA