Innköllunarkerfi heilsugæslunnar ófullnægjandi

Þátttaka barna við tólf mánaða aldur og fjögurra ára aldur í almennum bólusetningum var töluvert lakari árið 2016 en árið á undan samkvæmt nýrri skýrslu sóttvarnarlæknis. Minnki þátttakan enn frekar telur hann líkur á að hér geri vart við sig sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil.

Í tilkynningu frá sóttvarnarlækni segir að ástæður fyrir minni þátttöku séu ekki ljósar en taldar mestar líkur á því að innköllunarkerfi heilsugæslunnar sé ófullnægjandi fyrir börn á þessum aldri. Þá hafi komið í ljós töluverður munur á þátttöku milli landssvæða.

Ljóst er að þátttaka í bólusetningum við 12 mánaða og 4 ára aldur hér á landi er ekki ásættanleg og ef fram heldur sem horfir, þá geta blossað hér upp bólusetningasjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Í því samhengi má minna á að nú geisar mislingafaraldur í Evrópu og gætu stök tilfelli sést hér ef þátttöku hrakar.

Í skýrslunni kemur fram að við endurbólusetningu 4ja ára barna árið 2016 skilar sér í bólusetningu að meðaltali 85% af árgangi 2011, hér á Vestfjörðum er hlutfallið 97%, lökust er staðan í Vestmannaeyjum með 79%.  Hvað varðar endurbólusetningu 14 ára barna eru skilin á Vestfjörðum 93% og vermir þar botnsætið ásamt Suðurnesjum. Í flestum tilvikum er árangurinn á Vestfjörðum yfir landsmeðaltali.

bryndis@bb.is

DEILA