Íhugar framboð fyrir Samfylkinguna

Kristinn H. Gunnarsson

Kristinn H. Gunnarsson er genginn til liðs við Samfylkinguna og íhugar framboð fyrir flokkinn í þingkosningunum í lok október. Kristinn skráði sig í flokkinn fyrir skömmu síðan. „Fyrst ég er genginn til liðs við stjórnmálaflokk aftur þá ætla ég að reyna að starfa í honum,“ segir Kristinn.

Um næstu helgi verður aukafundur hjá kjördæmisræði flokksins í Norðvesturkjördæmi og á fundinum verður kosið um fjögur efstu sætin á framboðslistanum. Aðspurður hvort að hann gefi kost á sér í forkosningunum segir Kristinn að það sé til athugunar. „Ég er að velta því fyrir mér en þetta er stuttur fyrirvari til að undirbúa framboð.“

Kristinn hefur setið á þingi fyrir þrjá flokka, fyrst fyrir Alþýðubandalagið og síðar fyrir Framsóknarflokkinn og Frjálslynda flokkinn. Hann sat á þingi frá 1991 til 2009.

smari@bb.is

DEILA