Í lengstu lög – Um Vestfjarðaveg 60

Guðjón Brjánsson

Gleði og mæða

Síðastliðinn fimmtudag var hátíðisdagur á Vestfjörðum. Fyrsta sprenging vegna Dýrafjarðarganga var framkvæmd og það tók undir í fjöllunum.  Þetta var stórkostlegur dagur, söguleg tíðindi og við fögnum öll sem eitt. Samhliða gangagerðinni sjálfri bíða síðan nauðsynlegar vegabætur um Dynjandisheiði og á Bíldudalsvegi í Arnarfirði.

Enn eru hins vegar aldarfimmtungs gömul áform um endurnýjun lokaáfanga á milli Bjarkarlundar og Skálaness á sunnanverðum Vestfjörðum nánast í uppnámi. Aðalskiplag Reykhólahrepps bíður endurskoðunar sem þarf að flýta eins og kostur er.  Að óbreyttu má í framhaldinu gera ráð fyrir nýrri hringferð kærumála og ekki útséð hvernig eða hvenær þeim linni, mál sem liðast í spíral bæði upp og niður stjórnsýslustig. Tilfinningar og bábiljur eru ríkur hluti orðræðunnar.

Áfellisdómur?

Umræðan um vegalagningu í Gufudalssveit hefur staðið í ríflega 20 ár. Í ljósi ástands í samgöngumálum fjórðungsins er sá óralangi þæfingur fordómalaus og segir mikla sögu. Einhverjir kunna að líta svo á að þetta sé áfellisdómur yfir öllum þeim sem að málum hafa komið, sveitastjórnarmönnum, skipulagsyfirvöldum, Vegagerðinni, stjórnsýslustofnunum, ýmsum svonefndum hagsmunaaðilum og síðast stjórnmálamönnum, ekki síst þingmönnum kjördæmisins, og að þeim beinast nú spjótin.

Ef rýnt er í umfjöllun þetta tímabil verður ekki annað séð en allir þessir aðilar hafi reynt sitt og leitast við að þoka málum áfram, ekki minnst Vegagerðin.  Fjölmörgum sjónarmiðum hefur verið gefinn gaumur, breytingar gerðar, færðar til veglínur og samningaleið reynd til þrautar. Allt kemur fyrir ekki, þetta brýna umbótaverkefni er enn strand, í áframhaldandi óvissu.

Miklir hagsmunir

Það er ekki eins og um sé að ræða óverulegt og lítið hagsmunamál fyrir fáa. Þvert á móti er á dagskrá lífæð heils landsfjórðungs í samgöngum, atvinnulífs og íbúa. Það hefur í raun verið hlutskipti Vestfjarða að sitja stöðugt á hakanum í samgöngumálum.  Heils árs vegasamgöngum var t.d. ekki komið á í fjórðungnum fyrr en árið 1975 með opnun Djúpvegar.  Fyrir þann tíma reiddu menn sig á siglingar Fagraness inn að Arngerðareyri eða fóru suður um heiðarnar erfiðu og margumræddu þá mánuði ársins sem fært var.  Erfiðustu vegakaflarnir á þeirri leið eru í sama horfi og síst betri, enn í dag.  Frá þessum tíma hefur bílafloti landsmanna að minnsta kosti sjöfaldast.

Það er sama hversu mjög við dveljum við liðna tíð, við fáum henni ekki breytt og það skilar okkur því miður ekkert fram á veg.  Krafan nú er sú að þær stjórnsýslustofnanir sem í hlut eiga sitji ekki með hendur í skauti og láti verkin tala.

Ísandsmet í rannsóknum

Í sögu vegagerðar á Íslandi hafa líklega engin svæði verið rannsökuð jafn vandlega og yfirvegað og Vestfjarðavegur nr. 60 um Gufudalssveit með verndun fuglalífs, sjávarlífs á grunnsævi, skógrækt og önnur umhverfisáhrif að leiðarljósi.  Áður hafa vegaframkvæmdir átt sér stað í almennri sátt á afar viðkvæmum svæðum, t.d. þegar leirur Eyjafjarðarár voru þveraðar með brú og vegauppfyllingum(1986). Það sama á við um veg og brú yfir Gilsfjörð(1998).

Um það er ekki deilt að vegalagning á þeim slóðum sem núverandi tillögur gera ráð fyrir munu hafa umhverfisáhrif en þau eru til muna minni en fyrstu áform gerðu ráð fyrir.  Samfylkingin er flokkur sem leggur áherslu á umhverfisvernd og að náttúra sé varðveitt eins og kostur er.  Ég tel að þau sjónarmið hafi allt vinnuferlið verið virt og að viðunandi niðurstaða sé fengin, bæði gagnvart umhverfi og ekki síður almannahagsmunum.

Sátt

Heimamenn eru sáttir við núverandi tillögur enda bið þeirra eftir úrbótum orðin æði löng og t.d. Skógræktin hefur sent frá sér yfirlýsingu um að þau samtök standi ekki í vegi þess að nýr vegur verði þarna lagður.

Ég met það svo sem þingmaður í þessu kjördæmi að við svo búið verði ekki unað.  Nú verði hætt að spinna endalausar fléttur. Íbúum á svæðinu, atvinnu- og þjónustufyrirtækjum hefur verið sýnt ömurlegt viðmót og spuninn heldur áfram.  Ástand samgöngumála hefur bein áhrif á vöxt og viðgang samfélaganna.

Það er haft á orði við hátíðleg tækifæri að árangursríkasta leiðin til að tryggja best viðgang landsbyggðar séu góðar samgöngur.  Svo virðist sem hugur fylgi ekki máli hvað varðar Vestfirði.

Úrræði

Samstaða er meðal þingmanna kjördæmisins um brýnan framgang málsins. Einhverjir þeirra hafa ýjað að því að lagasetning sé eina úrræðið sem eftir standi, að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir atbeina Alþingis. Mín skoðun er sú að í landi okkar, þá verðum við í lengstu lög að treysta á stjórnsýslustofnanir og þá almennu laga- og reglugerðaumgjörð sem við búum við, að vönduð fagleg vinnubrögð séu iðkuð í hvívetna. Bent hefur verið á að með því að grípa til lagasetningar á Alþingi um einstakar framkvæmdi á svig við þar til bær yfirvöld sé verið að gefa varhugavert fordæmi.

Mál þetta er óumdeilanlega séstakt ef ekki einstakt og dráttur á niðurstöðum orðinn hneisa. Í handraðanum virðist fátt eftir annað en afarkostir.

Guðjón Brjánsson

alþingismaður

DEILA