Hreppsnefnd Árneshrepps auglýsir nú tillögu að breytingu á aðalskipulagi hreppsins og deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í tillögunum felst meðal annars heimild fyrir starfsmannabúðum á framkvæmdasvæðinu, vegir um virkjunarsvæðið verði skilgreindir og efnistökusvæði verði skilgreind við Hvalárósa, í Hvalá og við Hvalárvatn. Frestur til að skila athugasemdum er til 16. október. Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun sem Vesturverk ehf. á Ísafirði ætlar að reisa. Vesturverk er í eigu HS Orku og þriggja einstaklinga á Ísafirði.

Síðustu misseri hefur andstaða við Hvalárvirkjun farið vaxandi, en virkjunin hefur verið í nýtingarflokki rammaáætlunar Alþingis síðan 2013. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir hefur verið fremstur í flokki andstæðinga virkjunarinnar og orð hans hafa á tíðum farið þvert í Vestfirðinga sem telja virkjunina vera mikið framfaramál fyrir fjórðunginn. Meðal heimamanna í Árneshreppi og hjá brottfluttum úr hreppnum er einnig fólk sem berst af krafti gegn virkjuninni. Á málþingi um virkjunina í sumar voru samtökin Rjúkandi stofnuð, en þau draga nafn sitt af á sem stendur til að virkja á Ófeigsfjarðarheiði. Samtökin ætla að berjast fyrir verndun umhverfis, náttúru og menningarminja í Árneshreppi.

smari@bb.is

DEILA