Fær 13,8 milljónir vegna vangoldinna launa

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Ríkissjóður þarf að greiða Erni Erlendi Ingasyni, lækni við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, 13,8 milljónir kr. auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Dómur þess efnis féll í Hæstarétti í síðustu viku. Örn starfaði sem yfirlæknir heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og í kjölfar sameiningar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar var Erni tilkynnt um að starf hans hafi verið lagt niður frá og með 1. janúar 2015. Var hann á biðlaunum frá þeim degi til loka sama árs.

Í málinu krafðist Örn að viðurkennt væri að niðurlagning á starfi hans væri ólögmæt og í öðru lagi krafðist hann greiðslu vegna svokallaðra gæsluvakta sem hann taldi sig eiga rétt til á biðlaunatímanum. Í þriðja lagi krafðist hann miskabóta vegna ólögmætrar niðurlagningar starfsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af öllum kröfum Arnar í júlí í fyrra og áfrýjaði hann málinu til Hæstaréttar.

Í dómi Hæstaréttar er þeim hluta er varðar ólögmæta uppsögn og greiðslu miskabóta vísað frá dómi en fallist á að ríkinu ber að greiða honum fyrir gæsluvaktir á biðlaunatímanum, alls 13,8 milljónir kr. auk dráttarvaxta.

Í rökstuðningi Hæstaréttar er vísað til að gæsluvaktir hefði verið óháðar vinnuframlagi og væru því lagðar að jöfnu við samninga um fastar yfirvinnugreiðslur óháð vinnuframlagi sem í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefðu verið taldar falla undir biðlaun. Þá segir í lögum réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að starfsmenn heldi óbreyttum launakjörum á biðlaunatíma.

smari@bb.is

DEILA