,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“

Ein mynda á sýningunni.

Myndlistarkonan Ingibjörg Magnadóttir opnar sýninguna ,,Ég svaraði og sýndi þeim rauða mynd“ í Gallerí Úthverfu á Ísafirði á morgun. Ingibjörg Magnadóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr fjöltæknideild Listaháskóla Íslands árið 2000 og var einnig við nám í Kaupmannahöfn 1999. Hún lagði stund á sviðslistanám í Fredriksstað í Noregi 2001-2 og útskrifaðist með MA í ritlist frá Háskóla Íslands 2015. Hún hefur komið víða við og tekið þátt í fjölmörgum listsýningum og listviðburðum hér heima og erlendis undanfarin ár. Sýningaropnunin verður á morgun kl. 16 og stendur sýningin til 22. október.

Ingibjörg hefur þetta að segja um sýninguna og listina:

„Myndlistin virkar bæði á sjónrænan og tilfinningalegan hátt og þegar best lætur er hún áreynslulaus. Hægt er að ímynda sér að verkin komi til listamannsins án erfiðis og það sé einmitt áreynsluleysið sem geri sum verk aðgengileg, aðlaðandi, nánast andleg. Rólegt yfirbragð þeirra getur minnt á hugsleiðslu, þau geta verið ljóðræ og ákaflega innileg. Stundum er myndlist í hinu minnsta og ómerkilega en tekst samt að miðla undrum veraldar. Myndlist getur verið hlutur eða ,,object‘‘ sem á sér enga fyrirmynd og hefur þar af leiðandi aldrei verið til í þessum heimi í því formi sem hann birtist.

Myndlistin fæst við tilkomumikil eða ,,sensational‘‘ áhrif sem skapast við samsetningu efna. Margir listamenn geta ekki séð eiginleika verksins fyrirfram. Stundum ekki fyrr en mörgum árum síðar þegar þeir nálgast verkin sem áhorfandi.

Það er engu líkara en að ég sé hafi farið einhvern hring. Ég, líkt og flestir sem fara í gegnum myndlistarnám, lærði ég til margra ára teikningu, lita- og formfræði áður en ég byrjaði í Listaháskólanum. En þegar þangað var komið kynntist ég nýjum miðlum og braut ég upp flest það sem ég hafði lært. Ég sleppti samt aldrei takinu á teikningunni en notaði hana meira í formi skissu við gerð annarra verka.

Ég hef notið þess ósegjanlega að vinna myndirnar þó er þetta ögrandi áskorun fyrir mig og er þetta í fyrsta skipti sem ég sýni einkasýningu með svona stórum myndverkum. Þar sem þær eru stórar vann ég þær standandi. Mér finnst það skipta máli þar sem allur líkaminn var á hreyfingu við gerð þeirra, ekki bara hægri höndin.

Myndirnar eru að vissu leyti hefðbundnar í forminu. Eitt verk er til að mynda uppstilling af blómum í vasa. Hin verkin eru andlit, þær eru komnar inn í þennan heim úr heimi sem var ekki hér.“

DEILA