Býður sig fram gegn Guðjóni

Sigurður Orri ætlar í prófkjörsslag við Guðjón Brjánsson.

Sigurður Orri Kristjánsson hefur gefið kost á sér til að sitja í 1. sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Sigurður Orri er 29 ára gamall og er frá Stykkishólmi og Hólmavík. „Ég lít á það sem nauðsyn að Samfylkingin verði að styrkja sig í kjördæminu fyrir komandi kosningar. Ég tel að ég sé rétti maðurinn vegna þess að ég hef óbilandi baráttugleði og sannfæringu fyrir því hvað þarf að gera í Samfylkingunni og fyrir samfélagið,“ skrifar hann í framboðsyfirlýsingu.

Guðjón S. Brjánsson alþingismaður var efsti maður á lista flokksins í kosningunum fyrir ári og hann ætlar að gefa kost á sér í oddvitasætið á ný.

Guðjón Brjánsson

„Það er erfitt að bjóða sig fram gegn sitjandi þingmanni, ég geri mér fulla grein fyrir því,“ skrifar Sigurður Orri en segist meta það svo að til þess að Samfylkingin eigi möguleika á að stækka þá verði hún að bjóða fram nýtt fólk með ferska framsetningu, ferskar hugmyndir og kjark til þess að láta í sér heyra.

„Þó ég þekki þingmann okkar í kjördæminu af góðu, er hann frekar langþreyttur til vandræða og hefur ekki skapað sér nafn á þeim 248 dögum sem hann hefur setið á Alþingi. Ég lít svo á að 6% fylgi okkar í kjördæminu síðast sé ákall á breytingar, ekki ákall á sama lista,“ segir í yfirlýsingunni.

Um helgina verður aukafundur í kjördæmisráði flokksins og þar verður kosið um fjóra efstu menn á lista Samfylkingarinnar.

smari@bb.is

DEILA