Alþingi verður sett á morgun

147. löggjafarþing verður sett á morgun. Þingsetning hefst með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Séra Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufásprestakalli, prédikar og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur. Organisti Dómkirkjunnar, Kári Þormar, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 147. löggjafarþing, og að því loknu flytur forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir ávarp. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16.00. Þegar þingsetningarfundi verður fram haldið verður hlutað um sæti þingmanna. Fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 verður þá útbýtt.

Stefnuræða forsætisráðherra og eldhúsdagsumræður verða miðvikudagskvöldið 13. september kl. 19.30 og á fimmtudagsmorgun mælir fjármálaráðherra fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs.

DEILA