Af hverju eru úlfarnir í sauðagærum

Pétur Húni Björnsson

Kristinn H. Gunnarsson og fleiri hafa reynt að skapa tortryggni í garð Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnsson vegna baráttu þeirra gegn fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði á Ströndum, þar sem til stendur að virkja árnar Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjará. Látið er að því liggja að eitthvað annað en umhverfisvernd og áhugi þeirra á náttúrufari og náttúruundrum Ófeigsfjarðar og Eyvindarfjarðar búi að baki baráttu þeirra og birtingu þeirra á myndum af glæsilegum fossum á svæðinu í því sem þeir kalla Fossadagatal, þar sem birt er mynd af nýjum fossi á svæðinu dag hvern út septembermánuð. Ekki hefur verið bent á neitt „misjafnt“ sem kann að búa að baki hjá en sífellt ýjað að því það sé eitthvað og þeir til dæmis kallaðir úlfar í sauðagæru.

Málflutningur flestra þeirra sem hafa talað fyrir virkjunarframkvæmdunum hefur verið á sömu nótum og langar mig að renna í fljótheitum yfir röksemdir þeirra:

* Virkjunin er í nýtingarflokki Rammaáætlunar og því er ekkert við hana að athuga.

Nýtingarflokkur Rammaáætlunar leyfir áframhaldandi vinnu við undirbúning og þar á meðal er mat á umhverfisáhrifum framkæmdanna. Skipulagsstofnun metur umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar verulega neikvæð og einu atriðin sem eru ekki beinlínis neikvæð eru sögð háð óvissu vegna ónógra rannsókna, þeas fuglalíf og menningarminjar. Meira um það hér.

* Virkjunin tryggir bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Orkan frá virkjuninni mun tengjast inn á Mjólkárlínu í Kollafirði á Barðaströnd og mun þar af leiðandi ekki bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem neinu nemur. Ef þessi virkjun ætti að vera til bóta fyrir afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum þyrfti að tengja hana beint til Ísafjarðar, ekki við Mjólkárlínu á Barðaströnd. Það er engin bót fólgin í því að flytja raforkuna fjær Ísafirði, hún þarf að fara nær Ísafirði. Meira um það hér.

* Virkjunin er liður í að koma á hringtengingu raforkukerfis Vestfjarða.

Sett hefur verið upp flétta sem miðar að því að Landsnet setji upp tengipunkt á Nauteyri innst i Djúpi til að stytta leiðina sem HS Orku þarf að leggja línur frá virkjuninni og spara þeim milljarða í tengigjöldum við raforkudreifikerfið. Engar háspennulínur liggja að Nauteyri og eina línan sem er fyrirhuguð er línan yfir í Kollafjörð. Engar ráðagerðir eru um tengingu út Djúp til Ísafjarðar. Raforkan mun fara fjær Ísafirði en ekki nær. Meira um það hér.

* Framkvæmdirnar stuðla að viðgangi byggðar í Árneshreppi.

Vissulega verður ys og þys í Árneshreppi meðan búkollurnar bruna þar fram og til baka yfir bæjarhlöðin og vinnubúðirnar í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði verða þéttskipaðar vinnuflokkum þeirra verktaka sem munu annast framkvæmdirnar, en virkjunin mun engin störf skapa í hreppnum og litlar líkur eru á því að starfsmenn við virkjanaframkvæmdirnar muni hafa börnin sín í Finnbogastaðaskóla eða taki með öðrum hætti þátt í mannlífi hreppsins. Þeir munu eflaust skapa sitt eigið mannlíf, en þegar framkvæmdum lýkur er allt á bak og brott og engin störf verða eftir.

* Þeir sem eru á móti virkjuninni eru á móti Vestfjörðum, Vestfirðingum, Strandamönnum og/eða íbúum Árneshrepps.

Ef fyrri röksemdir í þessari upptalningu eru skoðaðar ætti að vera augljóst að virkjunin er ekki til hagsbóta fyrir Vestfirði, Vestfirðinga, Strandamenn eða íbúa Árneshrepps. Þar af leiðandi er fráleitt að þeir sem tali gegn þeim eigi eitthvað sökótt við landsvæðið eða íbúa þess. Mun nærtækara er að halda því fram að þeir sem mæla framkvæmdunum bót með því að vísa til þessara röksemda séu að vinna gegn hagsmunum svæðisins, annað hvort af því þeir vita ekki betur eða hreinlega sjálfum sér til hagsbóta því þeir hafi fjárhagslegan hag af því að af framkvæmdunum verði.

Þegar málið er skoðað ofan í kjölinn koma í ljós ýmsir úlfar sem eru misvel huldir sauðagærum, en Tómas og Ólafur eru ekki þar á meðal.

Gott væri ef úlfarnir köstuðu nú af sér sauðagærunum og segðu okkur hvað það er sem þeir ætlast fyrir og hvers vegna þeir halda stöðugt fram falsrökum fyrir framkvæmdunum.

Gæti verið að raunin sé sú að raunverulegu rökin séu ekki boðleg?

Pétur Húni

Stjórnarmaður í Rjúkanda

 

 

DEILA