Að móðga heilan landsfjórðung í einu viðtali

Krossneslaug á Ströndum.

Ólafur Már Björnsson og Tómas Guðbjartsson mættu í viðtal í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun og ræddu þar meðal annars hörð viðbrögð Vestfirðinga við málflutningi þeirra um virkjun Hvalár. Þeir segja „Vestfirðinga verði líka að sýna smá þolinmæði“ og telja að Strandir muni innan fárra ára verða einn heitasta ferðamannastað landsins.

„Það er verið að plata Vestfirðinga og hafa þá að fíflum með þessum áætlunum“ segja þeir og að það liggi fyrir að virkjun Hvalár muni ekki vera atvinnuskapandi. Vandamál Vestfjarða verða ekki leyst með ofsasjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi eða virkjun Hvalár.

Hafdís Gunnarsdóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu var ekki par hrifin af málflutningi þeirra Ólafs og Tómasar og ritar eftirfarandi færslu á facebook

„Ó við aumu Vestfirðingar. Við vitum ekki að það er bara verið að plata okkur í þessum virkjunar- og fiskeldismálum. Við þurfum bara að bíða í nokkur ár og þá mun ferðaþjónustan á Ströndum taka hressilega við sér og þá verður allt betra á Vestfjörðum. Hagvöxturinn og íbúafjöldinn mun væntanlega rjúka upp.

Það þarf sérstaka lagni til að móðga nánast heilan fjórðung í einu viðtali.“

Pétur Markan sveitarstjóri Súðavíkurhrepps tekur í sama streng og Hafdís í sinni færslu á Facebook:

„En af því að rætt er um atvinnuástand. Því hefur verið einnig kastað inn í umræðuna að lítið atvinnuleysi á Vestfjörðum sé merki um heilbrigt svæði og þá mögulega vísbendingu um væl í heimamönnum. Þá skrapaði umræðan botninn.

Lítið atvinnuleysi á Vestfjörðum orsakast ekki af velmegun og uppgangi, heldur atvinnuúrræðaleysi og niðurgangi. Sorg á sér margar birtingarmyndir. Ætli skýrasta birtingarmynd sorgar Vestfirðinga sé ekki einmitt sú staðreynd að fólkið okkar, börn, ættingjar, vinir og samtarfsfélagar flytja í burt, frá okkur.“

Fram kemur í viðtalinu að Hvalárvirkjun hafi verið laumað í gegnum rammaáætlun en um þetta tókust þeir á á visir.is Kristinn Gunnarsson, Tómas og Ólafur. Í grein sem Tómas og Ólafur rita segir: „Það er ótrúlegt að svo breyttri „Hvalárvirkjun“ hafi verið laumað í gegnum þarsíðustu Rammaáætlun, án nauðsynlegrar kynningar og umræðu.“ Þessu mótmæli Kristinn og fullyrðir að Hvalárvirkjun hafi verið samþykkt í Rammaáætlun 2, ágreiningslítið og með góðri pólitískri samstöðu.

bryndis@bb.is

DEILA