Vestfirðir mikilvægir vegna hreinleika líflamba

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Í nýrri skýrslu um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma er lögð áhersla á að verja líflambasölusvæði í Vestfjarðahólfi eystra sakir hreinleika þess og hólfið sagt eitt það mikilvægasta á landinu. Starfshópur um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma segir Kollafjarðarlínu orðna hættulega og gagnslausa, en varnarlínan liggur frá Kollafirði í A-Barðastrandasýslu yfir í Ísafjarðarbotn.  Starfshópurinn leggur ekki til grundvallarbreytingar á varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma

Á fjórða áratug síðustu aldar var Íslandi skipt upp í sóttvarnarsvæði (varnarhólf), sem afmörkuð eru með girðingum eða náttúrulegum hindrunum. Upphaflegur tilgangur þessa fyrirkomulags var að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma sem borist höfðu með innflutningi á karakúlfé frá Þýskalandi árið 1933. Um var að ræða sjúkdómana garnaveiki og mæðiveiki (votamæði og þurramæði). Varnarhólfin voru liður í aðgerðum sem ráðist var í til útrýmingar á sjúkdómunum. Sauðfé var fargað á sýktum svæðum og nýtt tekið í staðinn frá ósýktum svæðum. Votamæði var útrýmt árið 1952 en þurramæði árið 1965. Ekki tókst jafn vel til með garnaveiki og er hún enn til staðar. Eftir að bólusetning var tekin upp hefur tíðni garnaveiki þó minnkað mikið og hefur henni verið útrýmt á nokkrum svæðum. Í dag gegna varnarlínurnar mikilvægu hlutverki í aðgerðum sem lúta að upprætingu riðuveiki. Ennfremur hafa varnarlínurnar mikilvægu hlutverki að gegna við að stemma stigu við útbreiðslu nýrra smitsjúkdóma.

smari@bb.is

DEILA