„Vestfirðir gagntóku mig“

Hluti nemenda, kennara og starfsfólks íslenskunámskeiðanna samankominn í portinu á Vestrahúsinu þar sem Háskólasetrið er til húsa.

Ellefu ár eru síðan íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða hófu göngu sína og eru þau löngu orðin rótgróinn liður í starfsemi Háskólasetursins og mannlífi Vestfjarða, einkum á síðsumrum. Á þessum áratug hafa hátt í þúsund nemendur sótt námskeiðin og nú í ágúst sátu tæplega sjötíu nemendur yfir íslenskubókunum, bæði á Ísafirði og á Núpi í Dýrafirði.

Á vef Háskólasetursins er ítarlegt viðtal við þau Inga Björn Guðnason, verkefnastjóra íslenskunámskeiðanna, Gísla Hvanndal, íslenskukennara, og Stéphanie Klebetsanis frá Sviss, nema á námskeiðinu. Hún var að koma vestur annað árið í röð, er þýðandi sem lifir og hrærist í tungumálum. móðurmálið er franska en hún talar einnig reiprennandi þýsku og ensku, smá í ítölsku og lærir nú íslensku af kappi.

Hún kolféll fyrir Íslandi eftir óvissuferð til Reykjavíkur 2015 og þegar heim var komið fór hún á stúfana og leitaði að íslenskunámskeiði og úr varð að hún fór á byrjendanámskeið Háskólasetursins í fyrra og í sumar sótti hún framhaldsnámskeið. „Vestfirðir gagntóku mig. Námskeiðið var vel skipulagt, það var krefjandi en einnig skemmtilegt. Og ég hitti ótrúlegt fólk sem ég hef haldið góðu sambandi við. Það gat því miður ekki komið aftur í ár en ég veit að viljinn var fyrir hendi. Íbúarnir hér eru almennt mjög vingjarnlegir og opnir og greinilega vanir erlendum nemendum og útlendingum. Þrátt fyrir smæð sína býður Ísafjörður upp á ótrúlegt úrval af menningarviðburðum. Maður þarf eiginlega að leggja hart að sér til að láta sér leiðast,“ segir Stéphanie í viðtalinu.

DEILA