Treysta á stjórnvöld að hjálpa sauðfjárbændum

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir lýsir þungum áhyggjum vegna erfiðleika hjá sauðfjárbændum. Sauðfjárbúskapur er næst stærsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu. Í bókun sveitarstjórnar segir að ef fram fer sem horfir mun afkoma fjölda íbúa í Strandabyggð versna um 40-50% á tveimur árum. „Ekkert samfélag þolir það án þess að skaðast efnahags- og félagslega. Þau sveitarfélög þar sem sauðfjárbúskapur er aðal atvinnugreinin munu verða verst úti,“ segir í bókuninni.

Sveitarstjórn treystir því að stjórnvöld grípi til allra mögulegra aðgerða til hjálpar sauðfjárbændum, afurðastöðvum og sveitarfélögum til að komast yfir þá erfiðleika sem nú blasa við. „Að gera ekkert í þeirri stöðu sem nú er uppi væri ótrúlegt skeytingarleysi og fyrirlitning gagnvart byggðum landsins,“ segir að lokum.

smari@bb.is

DEILA