Í dag verður straumur settur á nýja spennistöð við framkvæmdasvæði Dýrafjarðarganga, Arnarfjarðarmegin en Orkubúið lauk við frágang á köplum í gær. Jarðgangaborvagninn og vagninn sem sprautar steypu á veggi ganga fyrir rafmagni sem og verkstæði, steypustöð og skrifstofa. Snerpa lagði í vikunni ljósleiðara að vinnusvæðinu og er endi hans í brunni við spennustöðina og verður hann sömuleiðis tengdur í dag.

Forskering gengur vel að sögn Gísla Eiríkssonar en gryfjan sem er grafin áður en gangagröftur getur hafist er kallað forskering. Gangagröftur getur hafist þegar komið er lóðrétt bergstál innst í gryfjunni. Í gær voru losaðir um 2000 m3 af efni, bæði laust efni og klöpp en fyrsta sprenging í forskeringunni var síðastliðinn þriðjudag.

Þegar rafmagn er komið á spennistöðina munu hefjast forprófanir á sprautusteypu en fyrsta hlassið af fylliefnum í hana komu í gær.

bryndis@bb.is

DEILA