Strandveiðikvótinn aukinn

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að auka aflaheimildir til strandveiða um 560 tonn og verða strandveiðiheimildir því 9.760 tonn á þessari vertíð. Í tilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins segir að með þessari ákvörðun sé verið að koma til móts við samþykkt stjórnar Landssambands smábátaeigenda þar sem skorað var á ráðherra að auka aflaviðmiðin í ágúst þar sem strandveiðarnar í ár hafi ekki uppfyllt væntingar. Þrátt fyrir að færri stundi veiðarnar í ár en í fyrra, og meira komi í hlut hvers og eins, þá er aflaverðmæti nú fjórðungi minna en í fyrra. Mest kemur í hlut svæðis A, sem nær frá Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps, eða 250 tonn.

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að ekki sé verið að auka heildaraflaheimildir heldur sé þetta tilfutningur á heimildum.

Auknar heimildir skiptast hlutfallslega á milli strandveiðisvæðanna fjögurra og er gert ráð fyrir því að þessi viðbót geti alla vega aukið sókn um tvo daga á hverju svæði.

smari@bb.is

DEILA