Stórtíðindi í fiskeldi

Haraldur Benediktsson

Ég styð fiskeldi sem byggir á grunni þekkingar og ráðleggingum frá okkar færasta vísindafólki.  Ég tók þess vegna þá ákvörðun að bíða eftir faglegri umræðu og niðurstöðu í starfshópi um fiskeldi. Nú liggur hún fyrir og verður til meðferðar í haust á vettvangi stjórnmálanna. Stóru tíðindin eru þau að samkvæmt fyrirliggjandi burðarþols- og áhættumati er verulegt rými fyrir uppbyggingu í fiskeldi.

Þrátt fyrir mikla baráttu hefur það verið hlutskipti margra byggða á Vestfjörðum, Austfjörðum og víðar að atvinnuskilyrðum hefur hnignað. Fiskeldi er allt á landsbyggðinni og sá langþráði viðsnúningur sem það hefur fært ýmsum byggðum mun ekki stöðvast samkvæmt niðurstöðum starfshópsins.  Starfshópurinn hafði enda að leiðarljósi markmið laga um fiskeldi, 71/2008. Ekki er lengur fyrirstaða til að sækja fram og byggja upp á þeim forsendum. Það er líka verðmætt að hagsmunaaðilar í laxveiðum og laxeldi hafa náð saman um að stuðla að þróun mála á grunni þekkingar og vísinda. Það hefur reynst okkur vel í sjávarútvegi.

Fram með gát

Það eru ekki lítil tækifæri sem nú eru fyrir hendi.  Fyrir hver 10 þús tonn af eldi má reikna með um 160 störfum auk afleiddra starfa.  Það er ljóst að mikil tækifæri eru í uppbyggingu atvinnulífs.

Ég er ekki á móti eldi í Ísafjarðardjúpi. Ég finn á hinn bóginn ekki rökin gegn því áhættumati sem segir að þar beri að fara varlega. Áhættu- og burðarþolsmöt geta tekið breytingum og vafalítið verður eldi í Ísafjarðardjúpi með tíð og tíma.

Ef þetta væri aðeins um að ræða um þrjár litlar laxveiðiár í Djúpinu mætti vel nota leikreglur laga og réttar og semja sig til niðurstöðu. Það gilda hinsvegar ákveðnar skyldur og  lög um vernd á villtum stofni laxa. Það er ekki svo, þótt það virðist ósanngjarnt, að miklir hagsmunir margra víki til hliðar minni hagsmunum fárra. Ef það á gera það verður að leita samninga um það. Það er ekki óþekkt í heimi þeirra sem fjalla um villtan lax. Sem dæmi má taka að markvisst var unnið að því að kaupa rétt til netaveiða á laxi í sjó.

Innri styrkur fiskeldisgreinarinnar er heldur ekki slíkur að það takmarki hana að ekki séu fyrir hendi ný og stærri eldissvæði.  Núverandi framboð seiða virðist eiga langt í land með að standa undir meira eldi en þegar er ákveðið. Það er því ekki svo að eldissvæði og athafnarými séu takmarkandi fyrir uppbyggingu núna.

Verðmæti villta laxins

Skýrsla starfshópsins og áhættumatið er ekki aðeins um að það sé áhætta fyrir Ísafjarðardjúp heldur landið allt. Það eru líka miklir hagsmunir margra að vernda og verja stöðugt verðmætari hlunnindi  af villtum laxi. Lög um veiðifélög og veiðiréttindi er einhver merkasta löggjöf okkar um umhverfisvernd og ábyrga nýtingu. Reyndar elsta umhverfislöggjöf okkar. Það eru til skýrslur sem draga fram þá staðreynd að helmingur af hreinum tekjum íbúa sveita á Vesturlandi kemur af ábyrgri nýtingu hlunninda. Staðreyndin er að tekjur og afkoma heimila víða um Vestur- og Norðurland eiga mikið undir ábyrgri og faglegri stefnumörkun.  Þetta eru ekki hagsmunir fárra laxveiðimanna heldur heilla byggðalaga.

Um það efni er jafnt á komið með þeim sem hafa væntingar um aukin umsvif af eldi og þeirra sem í dag lifa af nýtingu hlunninda. Samfélagsleg áhrif þarf að vega og meta með hagsmuni fólksins í huga, rétt fólks til að nota aðstæður sér lífsviðurværis.

Fiskeldi er hátæknigrein og þróun í tækni og eldisaðferðum fleygir fram. Nægir þar að vísa til tilrauna með sjóeldi, eldi í lokuðum kerfum og eldi á geldlax. Það má því vera að allar forsendur muni breytast hratt á næstu árum og laxeldið verði óumdeildara en það er í dag. Fleiri þætti mætti nefna sem koma fram í áhættumatsskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Þeir þættir munu eflaust eiga eftir breyta forsendum áhættumats á næstu árum.

Reynsla frá Noregi sýnir einnig að fylgni milli aukins eldi og fjölda starfa er farin að minnka vegna meiri tækni.  Hlutfallslega fer því störfum fækkandi með aukinni tækni og betri búnaði. Að sama skapi verður hvert starf verðmætara en áður. Þetta þarf að taka með í reikninginn fyrir framtíðina.

Ég held með Skagamönnum í knattspyrnu á hverju sem gengur. Ég þarf ekkert að rökstyðja það. Ég held hinsvegar með laxeldi á grundvelli þekkingar sem hægt er að afla hér heima og erlendis og þess mats sem er á hendi Hafrannsóknarstofnunar að leggja fyrir stjórnvöld. Allir ættu að ræða málin á þeim grunni.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA