Skjól í Gallerí Úthverfu

Á laugardag opnar ný sýning í Gallerí Úthverfu að að þessu sinni er það myndskáldið Halla Birgisdóttir.

Halla Birgisdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur síðan þá tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um landið. Halla notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum ýmist sem innsetningar, bókverk, veggteikningar, textíl-teikningar og/eða kvik-teikningar. http://www.hallabirgisdottir.org

Sýning Höllu Birgisdóttur í Gallerí Úthverfu opnar kl. 16 á laugardaginn og stendur til sunnudagsins 10. september.

Skjól

Skjól getur verið af tvennum toga, annars vegar skjól sem griðastaður og hins vegar skjól sem felustaður.  

Sum myndlist segir mikið um listamanninn sjálfan, til dæmis hvaða lífsýn hann hefur og hvað vekur áhuga hans. Hvort við hlustum á það fer eftir því hvað myndlistarmaðurinn er áhugaverður. 

Önnur myndlist leitar út fyrir sjálfa sig og vill koma pólitískum skilaboðum áleiðis til fjöldans, til dæmis um spillingu í stjórnmálum eða umhverfismál. Hvort sú myndlist nái eyrum manns fer gjarnan eftir því hvort skilaboðin staðfesti eigin sýn á þessi málefni eða ekki. 

Svo er til myndlist sem talar hvorki um sjálfa sig né umhverfið í heild sinni. Þetta er myndlist sem á í einkasamtali við hvern og einn áhorfanda. Þannig er myndlistin hennar Höllu Birgisdóttur.

Steinunn Lilja Emilsdóttir

 

DEILA