Sjávarútvegurinn hvergi mikilvægari

Í skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna 2008-2015 kemur fram að vöxtur hefur verið í öllum landshlutum að Vestfjörðum undanskildum. Þar dróst framleiðslan saman um 6% á tímabilinu en að meðaltali var hagvöxtur landshlutanna 4%. Skýrsluhöfundar telja markvert að fólki fjölgar sums staðar á Vestfjörðum, á stöðum sem lengi hafa átt erfitt uppdráttar, til dæmis á Patreksfirði, á Bíldudal og í Bolungarvík. Sjávarútvegur er hvergi eins mikilvæg atvinnugrein og á Vestfjörðum. Um 24% ársverka á Vestfjörðum voru í sjávarútvegi árið 2015 og rúmlega 2% ársverka voru í fiskeldi. Laun á ársverk eru lægri í fiskveiðum á Vestfjörðum en annars staðar og meðallaun á ársverk í öllum atvinnugreinum eru aðeins undir landsmeðaltali árið 2015. Umsvif í sjávarútvegi jukust á tímabilinu og í skýrslunni er bent á að talsverð uppbygging hefur verið í fiskeldi og meiri uppbygging fyrirhuguð á næstu árum.

Á hinn bóginn skruppu fjármálaþjónusta og tryggingar saman, aðallega á seinni hluta tímabilsins. Í þessum greinum voru umsvif árið 2015 aðeins fjórðungur af því sem var 2008. Nokkuð dró úr húsbyggingum og opinber stjórnsýsla dróst einnig saman.

smari@bb.is

DEILA