Ræddu aukna samvinnu heilbrigðisstofnana

Kristín Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, sótti fundinn og sést hér við hlið Óttars Proppé heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisráðherra og forstöðumenn heilbrigðistofnana áttu fund í velferðarráðuneytinu í gær til að ræða um tækifæri og leiðir til að auka samvinnu milli stofnana og til að styrkja teymisvinnu innan þeirra.

Í tilkynningu kemur fram að fundarmenn ræddu um sjónarmið sín og reynslu af margskonar samvinnu milli stofnana og innan þeirra og voru þeir á einu máli um að samvinna og teymisvinna hafi verið efld. Til dæmis hafi forstöðumenn hist reglulega undanfarin misseri þar sem rædd eru sameiginleg mál og verkefni til að samhæfa ýmsa verkferla og til að bæta þjónustu.

Á fundinum kom fram að mikilvægt sé að formgera betur samstarf stofnana og setja niður skýrari viðmið og verklag um ýmis sameiginleg mál sem snúa bæði að þjónustu við sjúklinga og rekstrarlegum þáttum. Með því móti megi bæta þjónustu og aðgengi sjúklinga að henni. Sömuleiðis kom fram að meiri samvinna stofnana skapi tækifæri til að nýta betur sérþekkingu starfsfólks til dæmis með starfsmannaskiptum og fræðslu.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir kærkomið að eiga slíkt samtal við stjórnendur heilbrigðisþjónustunnar og mjög ánægjulegt að heyra samhljóminn í orðum forstöðumannanna: „Það er greinilegt að samvinna milli stofnana skiptir forstöðumennina miklu máli og þeir hafa mikinn áhuga á að efla það enn frekar. Nú verður hrundið af stað verkefnum hér í ráðuneytinu í takt við þær góðu tillögur sem fram komu á fundinum“ sagði ráðherra meðal annars í lok fundarins.

smari@bb.is

DEILA