Fyrir ofan byggðina í Hnífsdal, í fjallinu Bakkahyrnu, er þekkt kennileiti sem kallast Hádegissteinn. Steinninn er 2-4 m á kant og tugir tonna á þyngd. Sérfræðingar Veðurstofunnar segja ljóst að steinninn er á hreyfingu og gæti fyrivaralaust hrunið niður í byggðinga við Dalbraut og neðan hennar.  Í vettvangsferð starfsmanna Veðurstofunnar fyrir viku sást greinilega að steinninn er  á hreyfingu og skófir á steininum ofanverðum gefa til kynna að steinninn hafi nýlega skriðið til eða snúist um allmarga cm þannig að sjá má skófalausa rönd sem nýlega hefur dregist upp fyrir yfirborðið.

Í minnisblaði Tómasar Jóhannessonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofunni, kemur fram að tilefni er til aðgerða til þess að draga úr hættu af völdum hugsanlegs hruns steinsins niður hlíðina, enda gæti hann valdið slysum á fólki og talsverðu tjóni á byggingum.

Tvennt er í stöðunni að mati Tómasar. Annars vegar að sprengja steininn upp í svo litla mola að ekki stafi hætta af þeim þegar þeir velta niður á jafnsléttu og hins vegar að festa steinninn með ankerum og/eða steyptri undirstöður til þess að koma í veg fyrir að hann hreyfist frekar.

Tómast telur að líklega sé betra að sprengja steininn, en þá þurfi kunnáttumenn í verkið og væntanlega væri rétt að rýma byggðina þegar steinninn er sprengdur og koma jafnvel fyrir grjóthrunsnetum eða öðrum fyrirstöðum til þess að hindra að steinbrot kastist niður í byggðina.

Í minnisblaðinu er bent á að á næstunni verða svissneskir tæknimenn á landinu á vegum Landsvirkjunar, en þeir sérhæfa sig í að draga úr grjóthrunshættu með því að festa eða sprengja lausagrjót sem hætta kann að stafa af.

Minnisblaðið var lagt fyrir fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í dag og var bæjarstjóra falið að kynna málið fyrir hverfisráði Hnífsdals.

Skófir niðri við jörðu á Hádegissteini ofanverðum. Sjá má 10 cm breiða rönd án skófa neðst á steininum.

smari@bb.is

DEILA