Litaskrúð á túnum

Það er fátt fallegra græni liturinn á nýslegnum túnum en nú hafa bændur bætt um betur og fyrir utan þessar hefðbundnu svörtu og hvítu heyrúllur má sjá bleikar og bláar. Það er reyndar talsvert síðan þessar bleiku fóru að birtast í náttúrunni og flestir vita að þeir bændur sem kaupa bleikt rúlluplast minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja málefnið á sama tíma.

Þessar fagurbláu eru hins vegar nýnæmi og þeim er ætlað að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein.

Þrjár evrur af sölu bleikra og blárra rúllu munu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, annars vegar til rannsókna á brjóstakrabbameini og hinsvegar til rannsókna á blöðruhálskrabbameini.

Upprunalega hugmyndin er frá viðskiptavini framleiðanda heyrúlluplastsins, Trioplast, á Nýja Sjálandi sem bað um bleikt rúlluplast til að minna á árvekni vegna brjóstakrabbameins. Í framhaldinu voru gerðar tilraunir með bleika litinn og tryggt að hann stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú þegar hafa bleikar heyrúllur hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi og fjölda annarra landa og vakið mikla athygli.

Myndasamkeppni 

Í tilefni af þessu skemmtilega frumkvæði bænda og dreifingaraðila verður haldin myndasamkeppni á Instagram um skemmtilegustu og frumlegustu myndirnar. Öllum er velkomið að taka þátt og vekja athygli á mikilvægu málefni.

Merktu þína mynd #bleikrulla eða #blarulla

bryndis@bb.is

DEILA