Kviknaði í út frá eldstæði

Í síðustu viku barst lögreglu tilkynning um um eld í íbúðarhúsi í Hnífsdal. Einn íbúi var í húsinu og hlaut hann brunasár. Hann var lagður inn á sjúkrahús vegna brunasáranna, sem þó virtust ekki vera lífshættulegir. Svo virðist sem eldurinn hafi kviknað þegar íbúinn var að kveikja upp í eldstæði. Greiðlega tókst að hefta útbreiðslu eldsins og slökkva hann. Í yfirliti lögreglunnar á Vestfjörðum um mál sem komu upp í síðustu viku segir að tilkynnt var um eitt vinnuslys en í því tilviki féll starfsmaður fyrirtækis í Bolungarvík úr stiga. Hann var fluttur á sjúkrahús á Ísafirði, þó ekki með lífshættulega áverka.

Fjórar tilkynningar bárust um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Það er því rík ástæða fyrir búfjáreigendur að reyna allt til að halda því frá vegi og sömuleiðis fyrir ökumenn að gæta varúðar, ekki síst í ljósi þess að skyggnið þverr.

Allst voru 18 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Lögreglan fjarlægði skráningarplötur af fólksbifreið einni á Ísafirði. Ástæðan var sú að þak bifreiðarinnar hafði verið fjarlægt en bifreiðin ekki búin viðeigandi öryggisbúnaði fyrir ökumann og farþega. Bifreiðin þannig tekin úr umferð af öryggisástæðum. Lögreglan vill vara við því að skerða öryggi ökutækja með þessum hætti.

smari@bb.is

DEILA