Fjórtán karla- og kvennalið öttu kappi á Evrópumeistaramótinu í mýrarbolta sem fór fram í Bolungarvík á laugardag. Skraplið A stóð upp sem sigurvegari í karlaflokki og FC Drulluflottar í kvennaflokki. Skraplið er hugtak sem varð til snemma í sögu Mýrarboltans, en heitið nær yfir lið sem er skrapað saman á síðustu stundu og oft og tíðum þekkjast leikmenn ekki neitt. FC Drulluflottar hafa tekið þátt í Mýrarboltanum um árabil og hafa hampað Evrópumeistaratitlinum oftar en einu sinni.

„Þetta tókst bara mjög vel,“ segir Benedikt Sigurðsson, drullusokkur Mýrarboltans. „Það var frábært veður og góð stemning. Það þarf að bleyta betur upp í völlunum á næsta ári. Við erum að læra inn á svæðið enda er þetta í fyrsta skipti sem mótið er haldið í Bolungarvík.“

Stór kostur við að halda mótið í Bolungarvík er nálægð vallanna við sundlaugina. „Við heyrðum það frá mörgum að það væri gott að geta rölt yfir í sundlaug og skolað af sér drulluna.“

Benedikt segir að menn muni stefna að því ótrauðir að halda mótið í Bolungarvík að ári. „Við erum reynslunni ríkari og á næsta ári stefnum við á stærra mót með fleiri viðburðum fyrir alla fjölskylduna.“

smari@bb.is

DEILA