Forsetafrúin mætir í tungumálaskrúðgöngu

Eliza Reid.

Á föstudaginn verður tungumálaskrúðganga frá Edinborgarhúsinu á Ísafirði að Byggðasafni Vestfjarða. Tilgangurinn er að vekja athygli á fjöltyngi og lokum sumarnámskeiðs fyrir börn þar sem fjölbreytni samfélagsins á Ísafirði er fagnað. Skrúðgangan, sem hefst kl. 11.30 er opin öllum og boðið verður upp á plokkfisk fyrir utan Tjöruhúsið. Við lok göngunnar munu þátttakendur námskeiðsins fleyta bátum sem þau hafa búið til.
Elíza Reid forsetafrú kemur til Ísafjarðar í tilefni dagsins og stýrir fundi sem fer fram í Rögnvaldarsalnum í Edinborgarhúsinu kl. 13 – 15.  Fundurinn er um framtíð sumarskóla þar sem tungumálum og fjölbreytni er fagnað í málörvandi umhverfi.
Hugmyndin að verkefninu vaknaði í fyrra þegar áhugafólk um fjöltyngi fundaði á Ísafirði. Anna Hildur Hildibrandsdóttir átti hugmyndina og stýrði framkvæmd námskeiðsins í ár í samstarfi við Menningarmiðstöðina Edinborg og Ísafjarðarbæ. Fimmtán börn sem tala sjö tungumál tóku þátt í námskeiðinu sem er fyrsta skrefið í þróun sumarskóla til að efla málvitund barna. Námskeiðið var opið öllum börnum á Ísafirði en sérstaklega ætlað fjöltyngdum börnum af öllum þjóðernum.
Tónlistarkennarinn Jóngunnar Biering Margeirsson og myndlistarkonurnar og kennararnir Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Nína Ivanova leiðbeindu börnunum í gegnum tón- og myndlist, leik og sögur. Jafnframt hefur Isabel Alejandra Diaz aðstoðað á námskeiðinu en saga hennar sem innflytjandi frá El Salvador varð hvatinn að hugmyndinni. Leiðbeinendurnir munu kynna afrakstur vinnunnar á fundinum á föstudaginn.
Ísafjarðarbær, Menningarmiðstöðin Edinborg, Tjöruhúsið, Landsbanki Íslands á Ísafirði, Nettó og Penninn Eymundsson studdu við námskeiðið í ár.

smari@bb.is

DEILA